141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er sammála þessari greiningu hjá Gamma. Hafandi sagt það er ég ekki maður sem stendur með hnefann á lofti og segir: Reisum strompana. Ég er ekki þannig maður. En aftur á móti vil ég fara út í vel ígrunduð verkefni.

Það er eitt sem virðist vanta upp á skilning hjá mörgum þingmönnum og fleirum, að þetta snýst allt saman um einhvers konar val. Ef við veljum að fjárfesta ekki í framleiðslutækjum og framleiða meira þá er það einfaldlega þannig að við getum ekki veitt borgurunum þá þjónustu sem borgararnir krefjast. Við getum ekki í öðru orðinu talað um að við viljum bæta velferð, heilbrigðisþjónustu, menntun og annað slíkt, og í hinu orðinu bannað allar framfarir og allar fjárfestingar í framleiðslutækjum. Sú formúla gengur ekki upp. Því fyrr sem ráðamenn gera sér grein fyrir því að samband er þarna á milli því fyrr komumst við út úr þeim ógöngum sem við erum komin í núna þar sem fjárfesting er í lágmarki frá því að mælingar hófust og ríkisfjármálin komin í þær gríðarlegu ógöngur sem raun ber vitni.

Í því sambandi vil ég kannski bæta við að sérstakt áhugamál mitt nú um stundir er að benda á að fjárlagafrumvarpið sem liggur hérna fyrir er algjör blekkingaleikur. Algjör blekkingaleikur og byggir ekki á neinu. Þessu fjárlagafrumvarpi (Forseti hringir.) ætti að henda í Eyfafen.