141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:41]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að í því fjárlagafrumvarpi sem við höfum verið að ræða og munum ræða núna á næstu dögum er ákveðin blekking fólgin. Þar er sannleikanum ekki haldið til haga og það eru fjölmörg atriði sem fjárlagafrumvarpið tekur ekki til. Þannig er í raun og veru verið að fegra stöðu ríkissjóðs, þetta er svona gríska leiðin sem ríkisstjórnin er að fara í þessu máli.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í neðri hluta Þjórsár og virkjanir þar. Nú er það svo að gríðarlega miklar rannsóknir liggja að baki þeim virkjunarkostum. Nú er búið að hanna meira eða minna öll mannvirki sem tengjast þeim rennslisvirkjunum sem nota bene eru í byggð. Hvað finnst hv. þingmanni um að það eigi að færa þá virkjunarkosti úr nýtingu yfir í biðflokk? Hvað mun það þýða og hvaða áhrif mun það hafa á atvinnuuppbyggingu meðal annars í Suðurkjördæmi? Við höfum bent á það hér í þessari umræðu að í Reykjanesbæ og á því svæði er eitt mesta atvinnuleysi á landinu. Þar bíða íbúar eftir því að orkan fari að streyma inn á svæðið til að fjölga störfum þar. Hvernig metur hv. þingmaður það? Telur hann hyggilegt að færa þessa milljarða kr. fjárfestingu, sem virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru, úr nýtingu yfir í bið? Hvað telur hann að það muni kosta atvinnulíf í Suðurkjördæmi? Hvaða áhrif telur hann að þetta muni hafa á tekjur ríkissjóðs og margra sveitarfélaga á þessu svæði?