141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að áhrifin af þessari ákvörðun verði gríðarlega mikil. Nákvæmlega eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson bendir á kemur þetta niður á atvinnulífinu á svæðinu. Það er eitt annað sem ég hef e.t.v. meiri áhyggjur af, það er að búið er að taka alla vatnsaflsvirkjunarkosti — ég kalla 60 megavött sem eru í nýtingarflokki ekki mikinn virkjunarkost, það er svona viðbót getum við sagt. Með því að taka alla vatnsaflskostina og skilja bara eftir háhitasvæðin, jarðvarmasvæðin, erum við að beina orkuöflun á Íslandi inn í jarðvarmann. Það verður að segjast alveg eins og er að jarðvarminn er ekki jafnþekkt nýtingaraðferð og menn hafa viljað vera láta, við sjáum það t.d. uppi á Hellisheiði. Þar eru viss vandamál í gangi og það er alveg hægt að spyrja sig t.d. hvort þetta hafi ekki gengið vel. Hvort það hvernig Krafla hefur verið nýtt sé saga hinna miklu sigra. Það er alveg hægt að spyrja sig að því. En með því er ég ekki að segja að þetta séu ómögulegir kostir, við verðum bara að fara hægt. Við verðum að vita nákvæmlega hvað við erum gera. Við eigum ekki að fara út í gríðarlega mikinn hraða í uppbyggingu á jarðhitasvæðum. Það verður að gerast rólega, en með því að taka út alla vatnsaflskosti er óhjákvæmilegt að verið er að auka hraðann í nýtingu jarðvarma.