141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta. Ég vil beina því til virðulegs forseta að það er vandamál í þinginu hversu erfiðlega gengur með marga ráðherra að fá þá til að taka þátt í sérstakri umræðu. Ég tel nauðsynlegt að forseti bregðist við og minni ráðherrana á að mikilvægt er að þeir komi til þingsins og taki þátt í umræðum þegar þeir eru um það beðnir. Þessi liður, sérstakar umræður, er mikilvægt tæki fyrir stjórnarandstöðuna til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

Það liggja nú fyrir fjölmargar beiðnir um sérstakar umræður, margar þeirra eru tímatengdar ef svo má að orði komast, virðulegi forseti, og tíminn líður. Þess vegna skiptir máli að ráðherrarnir komi strax til umræðu og geri ráð fyrir því í dagskrá sinni (Forseti hringir.) að það sé möguleiki á að þeir komi hingað til umræðunnar. Þetta er orðið vandamál.