141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta þessa ósk hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Þetta var nefnt líka í gær og reyndar í fyrrinótt. Hæstv. umhverfisráðherra brást ágætlega við og kom hingað til umræðunnar í gær og það var auðvitað mjög mikilvægt.

Þó að málið sé formlega séð núna í höndum Alþingis og á forræði umhverfis- og samgöngunefndar eru hins vegar ákveðin atriði þess eðlis að einungis hæstv. ráðherrar og þeir ráðherrar sem hafa undirbúið málið geta svarað spurningum sem einstakir hv. þingmenn hafa lagt fram. Það á til dæmis við um spurningar sem ég lagði fram í gær og hæstv. ráðherra nóteraði niður. Ég hafði vænst þess að hæstv. ráðherra kæmi í andsvör og svaraði þeim spurningum til að greiða fyrir umræðunni því að það er auðvitað betra ef upplýsingar eru reiddar fram strax í umræðunni en ekki beðið til síðustu stundar að umræðunni ljúki.

En engu að síður, ég ítreka að það er mjög mikilvægt að hæstv. umhverfisráðherra og reyndar eftir atvikum hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem hefur líka haft atbeina að málinu og kom að því við undirbúning þess, séu viðstaddir umræðuna og það strax.