141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:48]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir svörin um að ráðherrum verði gert viðvart um að nærveru þeirra sé óskað. Mig langar að árétta það að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sem sat í verkefnisstjórn um rammaáætlun setti fram fjölmargar spurningar í gærkvöldi sem mér finnst nauðsynlegt að fá svör við og trúlega eru það spurningar sem einungis ráðherrarnir geta svarað. Ég er því kominn hingað upp til að taka undir með félögum mínum um að þeir ráðherrar sem lögðu málið fram og bera pólitíska ábyrgð á því séu í þingsal og svari þeim málefnalegu spurningum sem þingmenn hafa lagt fram, því að annars getum við einfaldlega ekki klárað þessa umræðu. Við þurfum að fá svör við mörgum áleitnum spurningum og þess vegna er grundvallaratriði að ráðherrar séu hér. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að ætla að gera ráðherrunum viðvart um að nærveru þeirra sé óskað.