141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, sem ég spyr, að þegar menn ná samkomulagi eru alltaf einhverjir ósáttir og sennilega flestir. Ég skoðaði niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar og það var margt þar sem ég hefði viljað virkja, hreint út sagt. Það var margt þar sem ég hefði jafnvel viljað setja í biðflokk en ég féllst á þau rök sem þar voru notuð. Þau voru fagleg, þau voru sanngjörn og ég og flestir hefðum getað sætt okkur við niðurstöðuna. Þá er það bara niðurstaðan að ein virkjun á að vera í verndarflokki, það á ekki að snerta hana og þá gerum við það ekki, önnur virkjun á að vera í nýtingarflokki og hún verður þá nýtt jafnvel þó að einhver og eflaust einhver hópur í þjóðfélaginu sé á móti.

Það er einmitt sú sátt sem náðist þarna meðal breiðs hóps manna því að það er rétt hjá hv. þingmanni að stór hluti Íslendinga er ekki í öfgunum, vill ekki virkja hvaða sprænu sem er eða ekki neitt. Flestir eru á því að virkja í sátt við náttúruna. Mér fannst starf verkefnisstjórnarinnar vera mjög gott. Hún dró einmitt fram og hafði málefnaleg rök á bak við niðurröðun sína. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann fallist á tillögu okkar sjálfstæðismanna að málinu verði vísað aftur til verkefnisstjórnarinnar sem vann það og hún verði beðin um að raða virkjununum í nýtingarflokk, verndarflokk og biðflokk.