141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Þetta er ekki í fyrsta sinn og ekki í annað eða þriðja sem við hv. þingmaður tökumst nokkuð á um þessa hluti eða lýsum ólíkum sjónarmiðum en þó eru auðvitað alltaf sameiginlegir snertipunktar. Mig langaði að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmaður ræðir um Hellisheiðarvirkjun. Hann hefur gengið þar og hlaupið og ræðir sjónmengunina. Hún er auðvitað alveg svakaleg. Við sem munum eftir Hellisheiðinni áður en öll þessi ör í landinu urðu til og þessi mikla sjónmengun söknum hennar eins og hún var. Barnabörn hv. þm. Péturs Blöndals munu aldrei fá að kynnast henni þannig og það er mikill missir að mínu mati. Við fáum hana ekki aftur eins og hún var.

Þá kemur auðvitað að því að það er svo mikil ábyrgð sem fylgir því að ákveða í eitt skipti fyrir öll að slíkt landsvæði skuli skert og rýrt svona.

Aftur að Hellisheiðarvirkjun. Árið 2006 lýstu einmitt ýmsir „sérfræðingar“ því yfir að fólk þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af brennisteinsvetnismenguninni og vandanum þar. Það mundi vera tekið fullkomlega á því. Reynslan er að sjálfsögðu allt önnur og enn þá hafa þær lausnir ekki fundist.

Hv. þingmaður notaði orðið krabbamein um sjónmengunina en það hafa líka komið fram rannsóknir sem gefa vísbendingar um að okkur beri að fara sérstaklega varlega varðandi brennisteinsvetnismengun. Það kunni að ýta undir alvarlegan heilsubrest hjá fólki og hefur meðal annars verið bent á krabbamein í þeim tilfellum. Deilir hv. þingmaður því grunnstefi að okkur beri að fara (Forseti hringir.) sérstaklega varlega þegar kemur að jarðvarmavirkjunum, ekki síst út frá reynslunni sem komin (Forseti hringir.) er á Hellisheiðarvirkjun, og líka út af þeirri óvissu sem blasir við á svo mörgum sviðum?