141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég deili þeim áhyggjum. Í þúsund ára sögu þjóðarinnar eru jarðvarmavirkjanir ekki nema 50 ára gamlar og ekki einu sinni það. Fyrsta jarðvarmavirkjunin er ekkert mjög gömul og íslenskir vísindamenn hafa aflað sér gífurlegrar þekkingar á því sviði en hún er ekki komin á endastöð.

Því finnst mér sú áhersla undarleg sem er lögð á jarðvarmavirkjanir í þessu fráhvarfi hæstv. ríkisstjórnar og nefndarinnar. Mér finnst það undarlegt. Ég hefði talið að menn ættu kannski að flýta sér minna á því sviði en flýta sér meira á sviði vatnsaflsvirkjana. Eins og ég gat um er það auðlind sem hverfur. Tonn af vatni sem fellur niður af bergvegg í dag, sú auðlind verður aldrei nýtt aftur. Það er bara horfið öndvert við það sem talað er um í jarðvarmavirkjunum sem menn telja í einhverjum skilningi endanlegar og að það þurfi að ganga mjög varlega um þau svæði. Vatnsaflið hverfur og mér finnst einmitt að fráhvarfið frá starfi verkefnisstjórnarinnar sé öfugt við það sem ég hefði talið eðlilegt. Vatnsaflsvirkjanir eru mikið meira þekktar en jarðvarmavirkjanir.

Ég hef miklar áhyggjur af brennisteinslosun en auðvitað munu menn nýta það og finna lausn á því. Ég trúi því eins og menn hafa fundið lausnir á fjöldamörgum aðgerðum hjá Orkuveitu Suðurnesja, á þeim virkjunum þar sem eru kraftaverk og mikil vísindi. Ég geri ráð fyrir að menn muni finna lausn á þessu en við ættum kannski að staldra pínulítið við á meðan það er gert. Ég fellst á það sem hv. þingmaður segir um það. Ég vil vera varkár í því en hins vegar vil ég láta vatnsaflsvirkjanir ganga hraðar fram.