141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:21]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég held nefnilega að það sé mikilvægt að halda því til haga að þingheimur er að ég tel þvert á flokka að fallast á að það eigi að fara varlega þegar kemur að virkjunum. Það sé ekki mál einhvers eins flokks heldur varði okkur öll og við eigum að fara varlega þarna. Vegna þess að ég veit að hv. þingmaður gengur og hleypur og minntist á Hellisheiðina langar mig að spyrja hann sérstaklega um Krýsuvíkursvæðið, Reykjanesskagann. Ég hugsa að það sé stórbrotið svæði til útivistar og ég ætla að fullyrða að það land í heiminum sé vandfundið þar sem rétt við rætur höfuðborgarinnar og alþjóðaflugvallar finnist slíkt svæði til stórkostlegra möguleika á útivist til framtíðar. Það kemur fram (Forseti hringir.) í verkefnisstjórn hjá formönnum faghópa að gildi útivistarsvæða í grennd við höfuðborgarsvæðið hafi verið vanmetið (Forseti hringir.) og það þurfi að taka til sérstakrar skoðunar. Þykir hv. þingmanni rétt að skoða eða athugunarvert (Forseti hringir.) hvort þau svæði ættu hugsanlega að vera í biðflokki eða verndarflokki? Þá er ég sérstaklega að tala um Krýsuvíkursvæðið.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að gæta vel að tímaramma þegar mínúta er til svars og andsvars.)