141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir um að hverfa frá því sem verkefnisstjórnin ákvað og jafnvel að gera það sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til: Að verkefnisstjórnin taki til starfa aftur, klári verkið og setji í biðflokk og nýtingarflokk það sem henni finnst faglega. Síðan taki Alþingi sig til og blessi það í rauninni vegna þess að ég held að flestir séu til í að fallast á fagleg rök.

Ég er alveg sammála því að það er mjög slæmt að flytja áhersluna á jarðvarmann vegna þess að hann er bara ekki fullrannsakaður. Mannauðurinn hefur ekki vaxið nógu mikið. Þótt hann sé kannski mestur á Íslandi í öllum heiminum er ekki búið að leysa öll þessi vandamál en ég veit og er svo sannfærður um að hann muni leysa það.

Kröfur á Ísland erlendis frá munu vaxa, frá erlendum umhverfisverndarsinnum. Þeir munu segja: Þið eruð þarna með hreina orku, nýtið hana eins og þið getið í sátt við náttúruna. Þær kröfur munu vaxa og koma fram í verði á losunarheimildum sem gerir þá íslenska orku miklu verðmeiri en annars staðar þar sem hún er framleidd með kolum og gasi. Það mun valda því að bæði efnahagslegur og umhverfislegur þrýstingur vex. Þá óttast ég að menn kunni jafnvel að virkja jarðvarma með ónógri þekkingu og sleppa því að virkja vatnsafl sem er kannski miklu betur til þess fallið að minnka mengun mannkynsins í heild.

Svo geri ég bara ráð fyrir því að þegar nýtt Alþingi hefur verið kosið 27. apríl sé það algerlega óbundið af þessu því að menn fóru ekki að samkomulaginu.