141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þingmaður viti svarið nokkurn veginn. Þetta er gildra sem ég fell auðveldlega og ljúflega í. Ég mundi að sjálfsögðu virkja neðst í Þjórsá. Það er búið að jafna rennslið að mestu leyti ofar með öllum lónunum sem eru þar. Þetta eru þær alhagkvæmustu virkjanir sem til eru og þær eru innan um tún, vegi og annað slíkt þannig að ekki er ósnortið víðernið þarna í kring og bóndabæir og annað slíkt. Ég mundi ekki hika við að virkja.

Ég mundi reyndar horfa pínulítið á laxagengdina eða laxaseiðin varðandi neðstu virkjunina, Urriðafossvirkjun. Ég mundi fara í hana síðast og reyna að leysa vandamálið með urriðann eða laxinn. Það er efnahagslegt og umhverfislegt vandamál og spurningin er: Hvað leggjum við mikla áherslu á urriðann og laxinn sem náttúran getur eyðilagt með einu hlaupi að vetri?