141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kallaði eftir skýringum varðandi það sem snýr að jökulánum í Skagafirði. Hv. þingmaður fór vel yfir það í máli sínu að pólitískar yfirlýsingar frá núverandi ríkisstjórnarflokkum, hvort heldur Samfylkingunni eða Vinstri grænum, styddu niðurstöðuna.

Síðan kom hv. þingmaður inn á hvað jökulárnar í Skagafirði röðuðust ofarlega í verndunarflokkinn hjá verkefnisstjórninni. Ef ég man rétt voru þær í þriðja sæti í þeirri flokkun. Þó svo að ég og hv. þingmaður séum kannski ekki sammála um hvað beri að gera á þessu svæði höfum við, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, lagt fram tillögu þess efnis að verkefnisstjórninni verði falið að raða niður í nýtingar- verndar- og biðflokk.

Þá felst auðvitað í því að hv. þingmenn séu tilbúnir að axla þá pólitísku ábyrgð að fylgja til enda niðurstöðum hinnar faglegu vinnu sem unnin hefur verið. Þó svo að ég væri kannski á annarri skoðun en hv. þingmaður í þessum málum mundi ég binda hendur mínar með samkvæmt því og styðja niðurstöðuna hver sem hún verður. Ég ætla ekki að fullyrða hvað gerist en af öllum þeim gögnum sem sjá má um málið er líklegt að jökulárnar fari í verndarflokk. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji þá ekki eðlilegra og farsælla, vegna þess að svör hafa ekki borist hv. þingmanni um þá breytingu sem orðið hefur í meðförum þingsins, að fara þá leið að klára vinnuna á faglegum vettvangi.