141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:53]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eitt það ánægjulegasta í umræðunni hin seinni ár er að allir flokkar á Alþingi eru farnir að ræða málin og vilja vinna þau út frá rétti náttúrunnar og verndargildi hennar, að hún njóti vafans. Menn ganga mislangt í þeim efnum, það er alveg hárrétt, en nálgunin er samt gleðilega öll í þá átt. Ég verð að segja það, vegna þess að ég var líka viðstaddur Eyjabakkaumræðuna, Kárahnjúkaumræðuna og þá umræðu að virkja Villinganesið, að þá var umræðan hjá stórum hópi þingmanna nánast eingöngu um hversu hratt og mikið væri hægt að virkja á tímaeiningu. Umræðan um rétt náttúruvættanna, fljótanna, var ekki svo hátt skrifuð.

Ég fagna allri þeirri nálgun og fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn fari í vinnu á þeim forsendum því að þeirri vinnu ljúkum við aldrei, hún verður eilíf. Við munum áfram takast á um það og reyna að finna leiðir og safna upplýsingum um það sem við viljum gera. Við viljum öll vernda íslenska náttúru og íslenska náttúruvætti og afl þeirra hvort sem það er í ám eða í iðrum jarðar, með sjálfbærum, varanlegum hætti. Ég held að enginn vilji ganga á það til frambúðar þannig að það beri skaða af.

Ég tel að áætlunin sé gríðarlega mikilvægt spor í þeirri vinnu. Ég er ekki sammála öllu þar. Ég er ekki sammála þeim áherslum sem þar hafa komið inn. Ég vil hafa þær með öðrum hætti, en margt er gott þarna og (Forseti hringir.) við tökum umræðu um það. Ég tel að jökulárnar (Forseti hringir.) í Skagafirði megi strax fara í vernd.