141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það eru heilmargir hlutir ókannaðir sem snerta háhitasvæðin og hvernig þeim hlutum mun vinda fram. Við erum einfaldlega ekki komin jafn langt í rannsóknum á sviði orkuöflunar eins og í vatnsaflinu. Ég er sammála hv. þingmanni um að meiri hlutinn sé í raun og veru kominn í mótsögn við sjálfan sig. Á sama tíma segjum við: Við skulum nú fara okkur hægt fram og taka ákveðin skref í jarðhitanum en við skulum ekki fara of geyst. Með því að taka meðal annars rennslisvirkjanirnar þrjár í Þjórsá úr nýtingarflokki og setja í biðflokk mun þrýstingur aukast á aðra virkjunarkosti og þá kannski ekki síst jarðvarmann sem við eigum eftir að rannsaka mun betur.

Ég varpa þeirri spurningu fram hvort hv. þingmaður sé mér ekki alveg sammála um að það liggi fyrir gríðarlega miklar rannsóknir á þessum þremur virkjunarkostum í Þjórsá. Þeir eru mér dálítið hugleiknir vegna þess að ef við færum í þá framkvæmd yrði tími uppbyggingar þeirra þriggja virkjunarkosta svona 8–10 ár. Það mundi skapa nokkur þúsund ársverk á tímabilinu og yrði jöfn og góð stígandi í þeirri framkvæmd. Er hv. þingmaður sammála mér um að það liggi fyrir nægjanlegar rannsóknir um virkjunarkostina í Þjórsá? Hvor kosturinn yrði fyrir valinu ef hv. þingmaður mætti velja á milli þess að ráðast í orkuöflun á háhitasvæði, til að mynda á Reykjanesi, eða í neðri hluta Þjórsár?