141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[13:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svo ég svari síðustu spurningu hv. þingmanns fyrst er ekki vafi í mínum huga um að það væri mun skynsamlegra að fara frekar í efri virkjanirnar í Þjórsá. Mér finnst það reyndar koma fram í rökstuðningi meiri hlutans þar sem fjallað er um þessar þrjár virkjanir. Neðsta virkjunin er náttúrlega Urriðafoss þar sem menn taka ábendingum í sambandi við áhrifin á laxastofnana en síðan þegar kemur að rökstuðningi fyrir hinum efri virkjununum tveimur er vísað til þess sem á við um Urriðafoss. Helstu áhrif efri virkjananna á laxastofninn eru miklu minni en af Urriðafossvirkjuninni.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann. Hann fjallaði töluvert í máli sínu um hvaða áhrif þetta hefur á hagvöxt, uppbyggingu og það allt saman. Það er nefnilega nokkuð merkilegt að í hagvaxtarspánni sem fjárlagafrumvarpið er byggt á er gert ráð fyrir að fara, og það kom mjög skýrt fram hjá Hagstofunni þegar hún mætti á fund hjá fjárlaganefnd, í ákveðna stóriðjuuppbyggingu eða uppbyggingu á orkufrekum iðnaði. Þar er kannski horft til Bakka seinni hluta árs 2013 sem heldur þá uppi hagvaxtarspánni eða hagvextinum sem á að vera seinni hluta þess árs. Í fjárlögum vantar klárlega inn 2,6 milljarða kr. og það kom mjög skýrt fram á fundi fjárlaganefndar að sveitarfélagið mun ekki skrifa undir þá samninga sem áætlað er að gera í vor þannig að forsenda fjárlaganna er að mínu mati fallin nema sú fjárveiting komi inn.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi efasemdir um að það standi til að fara í einhverja atvinnuuppbyggingu á Bakka, það eigi bara að draga það fram yfir kosningar og sýna svo spilin vegna þess að fjárveitingin er ekki inni í fjárlögum.