141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:16]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðu hans. Ég hef mikinn áhuga á að spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, sem mjög reyndan sveitarstjórnarmann og þingmann, hvaða leið hann telji þá bestu þegar við nálgumst jafnflókin viðfangsefni og rammaáætlun er, til að ná niðurstöðu sem allt þingið eða stór hluti þingsins gæti staðið að.

Við erum hér að tala um ákveðinn grunn sem ég held að allir stjórnmálamenn sem sitja á þingi vilji gjarnan að hægt verði að nýta til framtíðar. Hv. þingmaður fór einmitt mjög ítarlega í það í ræðu sinni, og hið sama hefur komið fram í máli fleiri í þessari umræðu, að ef samsetning meiri hlutans breytist á þingi eftir alþingiskosningar hafa ýmsir í hyggju að taka upp rammaáætlun upp á nýtt og gera breytingar á henni.

Það getur tekið þó nokkurn tíma, til dæmis hefur þetta ferli hefur tekið um 14 ár. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort einhver möguleiki sé til þess, og ég beini að vissu leyti orðum mínum líka til hæstv. ráðherra Svandísar Svavarsdóttur sem situr hér, á að ná frekara samkomulagi. Ég tel raunar að það sé stór hluti af starfi okkar þingmanna að reyna að ná saman um hluti, að gera málamiðlanir, sem er kannski ólíkt því orðalagi sem hv. þingmaður notaði. Einhverjir geta kallað það hrossakaup eins og var gert hér áðan, en ég tel að það sé hluti af starfslýsingu þingmanna að reyna að ná samkomulagi um hluti þannig að við getum afgreitt málin í meiri sátt.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvað hann telji að hugsanlega megi ná málamiðlun um. Hvað væri til dæmis þingflokkur sjálfstæðismanna tilbúinn til að gefa eftir? Um hvað væri til dæmis möguleiki á að ná samkomulagi við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs?