141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég kom inn á það í ræðu minni að annaðhvort verður að klára þetta ferli í verkefnisstjórnina, láta hana raða upp á nýtt, eins og kemur fram í frumvarpi sem við sjálfstæðismenn lögðum fram en er fast í umhverfis- og samgöngunefnd, eða að skoða þá tillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram sem snýst um að vísa málinu til ríkisstjórnar og láta það fara þann farveginn. Ég tel það skynsamlegast til að við náum sátt og samstöðu um málið. Ég held að ef við nálgumst verkefnið þannig náum við mestri sátt.

Hv. þingmaður vísaði til þess að ég hefði langa reynslu í sveitarstjórnarmálum, við skulum orða það frekar þannig að hún sé töluverð. Það sem ég hef oft bent á í þessari umræðu, sem hefur reyndar verið málefnaleg, er að þótt við höfum skiptar skoðanir um þessi mál er mjög varhugavert að taka alltaf þann pól í hæðina að halda að maður sjálfur hafi alltaf réttast fyrir sér. Manni ber að hlusta á röksemdir þeirra sem hafa aðrar skoðanir til að komast að skynsamlegri niðurstöðu og það tel ég að séu eðlileg skoðanaskipti.

Þegar ég var í forsvari fyrir sveitarfélag í nokkuð mörg ár og ég þurfti að taka stórar ákvarðanir, eða sveitarstjórnin, leið mér alltaf verst ef allir voru sammála og sýndu einhvers konar hjarðhegðun. Ég leitaði yfirleitt alltaf uppi fólkið sem hafði uppi mestu gagnrýnina, hvort sem það var í sveitarstjórn eða úti í samfélaginu. Þegar ég hafði átt þessar rökræður beygði ég oft af leið, það kom fyrir, og tók rökum. Það er svo mikilvægt að taka tillit til skoðana annarra og það var einmitt uppleggið að gerð rammaáætlunar á sínum tíma, að leiða fólk saman og ná sameiginlegri niðurstöðu, og þetta kemur fram í umsögn Orkustofnunar sem ég vitnaði til í ræðu minni. Til að svo geti orðið verða allir að gefa eftir og taka tillit hver til annars, annars verður aldrei sátt til framtíðar um þetta verkefni eða önnur.