141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[14:59]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með alveg nýjan vinkil inn í þessa umræðu, sem er að mínu viti mjög mikilvægur þegar við horfum til framtíðar, þ.e. öll sú þekking sem við Íslendingar búum yfir er snertir endurnýjanlega orkugjafa. Ef skrúfa á allkirfilega niður í framkvæmdum á þessu sviði hér á landi mun það að sjálfsögðu hafa áhrif á verksvit og þekkingu okkar til lengri tíma litið þegar kemur að nýtingu á þessum endurnýjanlegu orkugjöfum. Nú þegar erum við í fjölmörgum verkefnum vítt og breitt um heiminn á þessu sviði og erum hvað fremst, en það er vegna þess að við höfum verið að nýta þessar auðlindir okkar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Nú hafa sérfræðingar rætt mikið um að við eigum þó nokkuð í land með að rannsaka til fullnustu háhitasvæðin. Ég lít svo á að með tillögu Vinstri grænna, að færa sex vatnsaflsvirkjunarkosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk, sé verið að auka þrýsting orkufyrirtækja að fara inn á háhitasvæðin og í raun og veru verði miklu meira virkjað á háhitasvæðunum en ella hefði orðið. Ef hv. þingmaður ætti að velja á milli þess að fara í vatnsaflsvirkjanir eins og tvær eða þrjár virkjanir í Þjórsá, sem yrðu rennslisvirkjanir í byggð, virkjanir í kringum bújarðir þar sem engin ósnortin víðerni eru, vatnsaflsvirkjanir sem teknar voru út úr nýtingarflokknum og settar yfir í bið, eða að ráðast í háhitasvæðin á Reykjanesi, hvor kosturinn yrði fyrir valinu?