141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég vonaðist til þess að markmiðið sem lagt var upp með, að þetta yrði faglegt, þetta yrði flokkað og auðvitað væri eitthvað sem þyrfti að takast á um eðli málsins samkvæmt — ég hélt einhvern veginn að við hefðum farið í alla þessa vegferð, með alla þessa aðferðafræði til að þurfa ekki að svara svona spurningum. Það sem hv. þingmaður er að benda á er að pólitíkin kom inn í faglega matið og setti fingraförin sín á verkið og menn sögðu: Já, já, það getur vel verið að þetta sé allt faglegt og rétt en mér finnst … Svo eru, eins og hann nefnir, sex vatnsaflsvirkjanir settar úr nýtingarflokki í biðflokk og meiri pressa sett á önnur svæði, háhitasvæði. Ef við erum á þessum stað þá var til lítils að eyða öllum þessum milljörðum til að koma í veg fyrir þetta. Þá hefðum við alveg eins getað staðið hér og kallað hvert á annað eða rökrætt hvað okkur fyndist.

Ég varð fyrir svo miklum vonbrigðum. Ég er búinn að fylgjast með þessari rammaáætlun, ég ætla ekki að segja hvenær var byrjað að tala um hana í pólitíkinni en mjög snemma byrjuðu menn að segja: Getum við ekki sett þetta í einhvern farveg sem þjóðin getur orðið sátt um? Við lögðum upp með ákveðinn leik og vissum ekki hvað kæmi út úr honum en núna, eftir allt þetta, þá sitjum við hérna og segjum: Þessi virkjun, nei, ég vil hana ekki, ég vil hina. En þessi, hvað finnst þér? — Við erum búin að eyða, ég man ekki hve mörgum milljörðum í þessa vinnu til þess að koma í veg fyrir það (Forseti hringir.) sem við erum að gera nákvæmlega núna.