141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og ætla að svara henni, en svo að ég haldi mig við stóru myndina þá var ég að vona, af því að við verðum að lifa af einhverju, að við mundum ná saman um það og værum öll sammála um að Ísland ætti að byggja afkomu sína að einhverju leyti og væri í fremstu röð þegar kemur að þekkingu á umhverfisvænum orkugjöfum. Við höfum gríðarleg tækifæri. Við getum þess vegna rafbílavætt okkur ef við ætlum að gera eitthvað til að byrja með. Ég hef oft séð Vestmannaeyjar fyrir mér, að við hæfum rafbílavæðingu þar. Það væri örugglega hægt að fá einhverja framleiðendur í að skapa eitt slíkt samfélag til að læra af því. Við erum búin að gera svo mörg mistök, virðulegi forseti, og í því felst þekkingin.

Hérna sitjum við eftir allan þennan tíma og hv. þingmaður bendir á það sem allir vita og tala um, að við verðum að fara í fjárfestingu, annars sköpum við ekki verðmæti, annars verður ekkert atvinnulíf hér, annars hækkun við ekki launin. Stjórnarliðar koma hingað upp og halda afskaplega fínar ræður um mikilvægi græns hagkerfis. Virðulegi forseti, þetta er grænt hagkerfi — þetta er græna hagkerfið. (BJJ: Akkúrat.) Það er hollt að hitta útlendinga en það er fullkomlega útilokað að reyna að útskýra fyrir þeim deilurnar hér á landi um þessi mál. Þeir eiga ekki orð yfir hvað við höfum náð langt, hvað við erum með hátt hlutfall af umhverfisvænum orkugjöfum hér á landi. Þegar þeir bera saman virkjanirnar okkar við virkjanirnar sem þeir þekkja þá finnst þeim okkar standa framar svo miklu munar. En við getum ekki náð sátt um þetta, (Forseti hringir.) sem mun koma niður á íslenskri (Forseti hringir.) þjóð.