141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ræddi áhugavert mál sem snertir framtíðina og hvernig menn ætla að halda á málum í framhaldi af samþykkt þessarar þingsályktunartillögu hér, ræddi um nýja verkefnisstjórn sem á væntanlega að fara yfir málin og þá sérstaklega það sem er í biðflokknum. Mér leikur forvitni á að vita hvernig hv. þingmaður metur framhaldið. Nú tekur þessi verkefnisstjórn til starfa og þar fara væntanlega okkar helstu sérfræðingar áfram yfir málin. Megum við þá allt eins búast við því þegar sú niðurstaða liggur fyrir að þá taki við sama ferlið, að mál verði sett inn á borð ríkisstjórnarinnar í hendurnar á kannski tveimur ráðherrum sem annars vegar sjá um umhverfismálin og hins vegar iðnaðarmálin og að menn fari að „víla og díla“ á milli stjórnarflokka um það hvaða þættir eigi að vera áfram í biðflokki, jafnvel í verndarflokki eða nýtingarflokki? Megum við þá búast við því samkvæmt því verklagi sem ríkisstjórnin er að innleiða hér að þessar náttúruauðlindir okkar, orkuauðlindir og náttúruperlur, verði einhvers konar skiptimynt þegar kemur að því að ræða um framtíð ríkisstjórnarsamstarfs og verði líka að ágreiningi þá á milli ríkjandi stjórnvalda og minni hlutans á Alþingi? Erum við ekki búin að leiða þetta mál — ekki við, heldur ríkisstjórnin — á þær villigötur og í þær ógöngur að það sé mikilvægt að staldra við og sjá hvort við getum ekki náð þverpólitískri sátt um það?