141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:14]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ræddum áðan um framtíðarfyrirkomulag í þessum málaflokki, þ.e. hverjar yrðu áherslur næstu verkefnisstjórnar sem sett verður á grundvelli þessarar þingsályktunartillögu. Hjá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar koma fram ákveðin sjónarmið sem mér finnst mikilvægt að við ræðum áður en við göngum til atkvæða um málið. Í a-lið ályktunarinnar á bls. 25 er sagt að meiri hlutinn beini því enn fremur til ráðherra og Alþingis alls, með leyfi forseta, að:

„… meta hvort ástæða sé til að rammaáætlun taki einnig til smærri virkjana.“

Mig langar að stoppa við þennan staflið og velta fyrir mér hvers lags bákn eigi að gera úr næstu verkefnisstjórn. Er hér virkilega verið að ræða um hvort fara eigi fram sérstakt leyfisveitingarferli ef bóndi eða landeigandi vill virkja bæjarlækinn hjá sér, að hann þurfi að leita til verkefnisstjórnar um rammaáætlun? Maður veltir því fyrir sér á hvaða leið við erum í þessum málum og hvort menn hafi almennt gert ráð fyrir því.

Í á-lið stendur, með leyfi frú forseta:

„[A]ð láta störf næstu verkefnisstjórnar taka einnig til annarrar orkuvinnslu en úr vatnsafli og […] að þessir framtíðarkostir yrðu metnir í samhengi við þörf fyrir jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir.“

Það er ekkert smáverkefni sem verkefnisstjórnin á að takast á hendur. Ég hefði viljað að fram færi umræða hér og hæstv. ráðherra kæmi til umræðunnar og mundi útskýra fyrir okkur hvaða hugmyndafræði liggur hér að baki. Á verkefnisstjórnin að taka á móti tugum eða jafnvel hundruðum umsókna á ári ef landeigendur hafa hug á því að virkja bæjarlækinn eða hvaða vald á að veita þessari stofnun? Hvaða kostnaður mun hljótast af því fyrir ríkissjóð og hvaða kostnaður mun hljótast af fyrir venjulega landeigendur, einstaklinga sem vilja virkja bæjarlækinn? Hvert erum við að stefna í þessu máli?

Maður veltir því líka fyrir sér hvers lags völd verkefnisstjórnin eigi að hafa varðandi mat á annarri orkuvinnslu þar sem verið er að ræða um vindorku og sjávarfallaorku. Hvert stefnum við hvað það varðar? Hversu umfangsmikið verður það samhliða áðurnefndri starfsemi verkefnisstjórnar? Verið er að útvíkka allverulega hlutverk verkefnisstjórnarinnar.

Mér finnst að við þurfum að staldra við og velta fyrir okkur hvernig við ætlum að haga þessum málum til lengri tíma litið. Við þurfum líka að svara þeirri grundvallarspurningu, vegna þess að Vinstri grænir hafa dálítið öfgafull sjónarmið þegar kemur að umhverfismálum, hvort næsta ríkisstjórn muni hringla í þeim tillögum sem næsta verkefnisstjórn leggur fram, hvort þær tillögur muni enda á pólitísku taflborði ríkisstjórnarflokka sem þá verða við völd. Mér finnst það ekki við hæfi vegna þess að allt frá upphafi var hugmyndafræðin sú að við mundum láta okkar helstu sérfræðinga á þessu sviði móta stefnuna og þannig gætum við kannski hafið okkur upp úr pólitískum hjólförum og náð sátt og samstöðu um framtíðarskipan í þessum mikilvæga málaflokki.

Við þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks höfum ítrekað sagt í þessari umræðu að við séum reiðubúin til samstarfs. Við skulum byggja það samstarf á faglegu mati helstu vísindamanna okkar. Við skulum ekki sveigja frá tillögum þeirra. Þannig getum við, eins og hefur reyndar verið sátt um í öllu ferlinu hingað til, myndað trúverðuga stefnu til lengri tíma litið. En eins og fram hefur komið í umræðunni, frú forseti, mun þessi þingsályktun, verði tillagan samþykkt, í besta falli (Forseti hringir.) lifa fram yfir næstu kosningar, því að ég spái að þá verði farið verið fljótlega í að (Forseti hringir.) endurskoða þær tillögur sem hér eru lagðar til.