141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Það er ljóst að til er orðinn þó nokkur hópur fólks í íslensku þjóðfélagi sem telur að nóg sé komið af virkjunum og að ekki þurfi að virkja meira. Það er jafnvel til fólk í íslensku samfélagi sem heldur því fram að áhersla á hagvöxt sé gamaldags hugsunarháttur, við þurfum ekki að vaxa frekar heldur sé það eina sem þurfi að skipta kökunni öðruvísi en nú er gert. Sumt af þessu fólki situr jafnvel á Alþingi. Þannig að ég held að sé ekki úr vegi að eyða hérna nokkrum mínútum í að fara yfir samhengið sem ríkir í fyrsta lagi á milli orkunýtingar og hagvaxtar og í öðru lagi á milli hagvaxtar og velferðar í landinu.

Til þess að geta staðið undir vörum og þjónustu þarf að framleiða. Til þess að geta staðið undir kaupum á erlendum vörum og erlendri þjónustu þarf að afla gjaldeyris. Það er svo einfalt að einungis útflutningur getur aflað gjaldeyris til þess að flytja inn vörur og þjónustu sem við þörfnumst. Þetta samhengi, þótt einfalt sé, virðist oft flækjast fyrir mörgum. Jafnframt vegna hinnar sérstöku stöðu Íslands nú í dag er mikilvægt að við aukum framleiðslu til þess að auka útflutning. Þeir sem neita því að nýta orkuauðlindir landsins til þess að við getum aukið framleiðslu og útflutning virðast oft gleyma að benda á hvernig við eigum að afla útflutningstekna ef ekki með aukinni framleiðslu. Þessarar gleymsku gætir mjög í nýrri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Þar er margt ágætt sem ætlunin er að fjárfesta í og sagt að það muni leiða til hagvaxtar sem byggist á sjálfbærum grænum grunni, en það fylgir ekki þeirri fjárfestingaráætlun hvernig þessi hagvöxtur eða hvernig þessi framleiðsla eigi að koma fram.

Það er nokkuð augljóst að það að fjárfesta í húsnæði fyrir ríkisstarfsmenn leiðir ekki til þess að útflutningstekjur aukist. Jafnframt mun grænkun íslenskra fyrirtækja eða grænkun innkaupa hjá hinu opinbera, þó svo að það sé göfugt markmið, ekki leiða til hærri útflutningstekna. Það er því hægt að gera stórar athugasemdir við þá stefnumörkun ríkisstjórnarinnar sem felst í þeim hugsunarhætti sem kemur fram í fjárfestingaráætlun hennar.

Það sem við þurfum að gera er að nýta auðlindir okkar. Við þurfum að nýta þær skynsamlega og í sátt við náttúruna, þ.e. við megum ekki ganga það nærri náttúrunni að óafturkræfar skemmdir hljótist af. Þess vegna var fyrir rúmum áratug sett í gang sú vinna sem hér er verið að tala um, rammaáætlun um nýtingu landsvæða, orkunýtingu og vernd landsvæða. Það er þess vegna sem við fengum okkar helstu sérfræðinga til að flokka náttúruauðlindir út frá nokkrum forsendum, forsendum sem ættu að ná yfir flest það sem ætti að hafa í huga við orkunýtingu, eins og náttúru og menningarminjar, að ekki verði gengið of nærri náttúrunni og ekki verði gengið á menningarminjar. Við megum ekki spilla útivist, ferðaþjónustu eða hlunnindum sem þegar eru af náttúrufyrirbærum, getum við sagt. Síðan eru það efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana. Fjórði þátturinn er virkjunarhugmyndir og hagkvæmni þeirra.

Ég bar þá von í brjósti að út úr slíkri vinnu kæmi tillaga frá þessum hópum sérfræðinga þar sem virkjunarkostum væri raðað í þrjá flokka, þ.e. í flokk þar sem við getum hafið nýtingu, í biðflokk þar sem vantar frekari rannsóknir og af einhverjum ástæðum er ekki einhugur um að kostirnir eigi annaðhvort að fara í verndarflokk eða í nýtingarflokk og að lokum í verndarflokk þar sem er óumdeilt að ekki eigi að fara út í nýtingu. Það geta verið margar ástæður fyrir því. Þarna eru augljósir kostir eins og Geysir. Ég held að fáir Íslendingar mundu fallast á að virkja á Geysissvæðinu. Þarna eru verðmæt svæði sem allir eru sammála um að eigi ekki að virkja. Þarna lenda reyndar inni kostir sem eru umdeildari, eins og Norðlingaölduveita sem ég fór yfir í fyrri ræðu minni (Gripið fram í: Gjástykki.) og Gjástykki. (BJJ: Okkar kjördæmi.) Virðulegi hv. þingmaður bendir á að sá kostur er í okkar kjördæmi. (BJJ: Norðausturkjördæmi, þar sem þú ert í framboði.)

Ég gerði samhengið að umræðuefni í byrjun ræðu minnar. Ef við ætlum að halda uppi velferð hér í landinu verðum við að skapa útflutningstekjur. Það gerum við með framleiðslu. Það gerum við með því að virkja svæði sem full samstaða ríkir um. Hér er verið að beina okkur inn á óheillabraut, að ég tel. Hér er búið að taka út álitlega vatnsaflskosti eins og neðri hluta Þjórsár, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, Urriðafossvirkjun þarfnast hugsanlega frekari rannsókna við, Skrokkölduvirkjun, en í staðinn er okkur beint inn á háhitasvæðin, að mjög miklu leyti á Reykjanesskaga. Það tel ég að geti verið varhugavert vegna þess að það ýtir mönnum í að virkja háhitasvæði á meiri hraða en æskilegt væri út frá sjónarmiðum, m.a. náttúruverndarsjónarmiðum.