141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Við höfum svo sem rætt þau skilaboð sem ný verkefnisstjórn fær frá þinginu, þau sem koma fram í staflið b á bls. 25. Hér stendur, með leyfi forseta, að meiri hlutinn vilji að ráðherra og Alþingi athugi „hvort ekki sé æskilegast að í lögunum væri mælt fyrir um endurmat ónýttra kosta í orkunýtingarflokki“.

Af hverju ætli meiri hlutinn vilji að þetta endurmat fari fram í þessum flokki? Ef á að fara að endurmeta má spyrja hvort ekki sé eðlilegt að endurmatið eigi jafnframt við um hina flokkana. Biðflokkur er í sjálfu sér alltaf í einhvers konar mati, en af hverju er þá ekki verndarflokkur líka endurmetinn ef menn telja að það þurfi að endurmeta orkunýtingarflokkinn? Getur verið að sú staða komi upp að menn hafi aðrar skoðanir eða það verði gerðar einhverjar rannsóknir sem leiði til dæmis til þess að háhitasvæði sem eru í verndarflokki, ég er bara að hugsa hér upphátt, verði endurmetin og þau hugsanlega færð um flokk? Hér virðist nýtingarflokkurinn verða undir smásjánni ef þessi tillaga nær fram að ganga. Kannski er ekkert athugavert við það að kostir séu endurmetnir, það hlýtur að gilda um allan pakkann, að allt sé skoðað.

Mér finnst eins og það sé verið að undirstrika þann tón sem er í nefndarálitinu og þessari tillögu frá meiri hlutanum, ekki síst eftir ráðherrafiktið, að enn sé þessi mikla áhersla á að orkunýtingin sé í rauninni varhugaverð.