141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem hv. þingmenn slepptu honum rétt í þessu og velta fyrir mér efnisatriðum þessa máls og hvernig menn komust í raun að þeirri niðurstöðu sem þingsályktunartillagan bendir til.

Eins og ég fór yfir í fyrstu ræðu minni var settur lagalegur rammi utan um málið sem fól í sér að tveir hæstv. ráðherrar fengu það verkefni að fara yfir málin að nýju eftir að búið var að dreifa drögum að þingsályktunartillögu og eftir að umsagnir höfðu borist frá fjöldamörgum aðilum. Nú skulum við snúa þessu aðeins við, velta þessu fyrir okkur, reyna að vera sanngjörn í þessari umræðu og með skírskotun til þess að þegar við ræðum um umhverfismál er gjarnan talað um að láta náttúruna njóta vafans skulum við láta hæstv. ráðherra njóta vafans, höfum uppi einhvers konar pólitísk varúðarsjónarmið. Segjum sem svo að hæstv. ráðherrar hafi gengið að því verki til að fara efnislega yfir málin. Metum síðan niðurstöðuna.

Það sem blasir hins vegar við er að niðurstaðan er mjög einhliða. Það má vel vera að það þurfi út af fyrir sig ekki að vera svo vitlaust, ráðherrarnir hafi bara vegið og metið kostina og komist að þeirri niðurstöðu að í öllum tilvikum væri skynsamlegt að færa allar umdeilanlegar virkjanir í nýtingarflokki í biðflokk. En var það þannig? Var sú efnislega forsenda sem hæstv. ráðherrar gátu byggt á mjög einhlít í þá átt? Kom alls staðar fram, t.d. í umsögnum og við yfirferð málsins, að engir virkjunarkostir gætu mögulega farið úr biðflokki yfir í nýtingarflokk? Það vill nú þannig til að tveir virkjunarkostir komu sérstaklega til álita.

Í fyrsta lagi var það þannig með annan kostinn, Hólmsárvirkjun, að menn höfðu fyrir mistök — og auðvitað geta alltaf gerst mistök, við skulum ekki hafa stór orð um það — unnið með eldri gögn sem bentu til annarrar niðurstöðu en hin nýrri gögn hefðu bent til. Í öðru lagi hafði önnur virkjun, Hagavatnsvirkjun, þá sérstöðu að hún átti uppruna sinn í hugmyndum manna um umhverfisátak til að koma í veg fyrir uppblástur. Ég nefndi áðan að uppblástur væri sennilega ein mesta náttúruvá á Íslandi og kannski meiri vá hér á landi en í mjög mörgum öðrum löndum af ýmsum ástæðum.

Þetta var mjög áhugavert og þegar við skoðum umsagnirnar um Hagavatnsvirkjun blasir við að þær eru mjög í eina átt. Þær segja allar: Það er skynsamlegt að virkja Hagavatn af því að það hefur í för með sér betri umhverfisleg áhrif. Þá hefði maður getað ímyndað sér að á grundvelli þessa hefði niðurstaða hæstvirtra ráðherra orðið eftirfarandi: Annars vegar að skúbba öllum þessum sex virkjunum úr nýtingarflokki í biðflokk, og því hefðu bara valdið málefnaleg sjónarmið. Ég er að vísu algjörlega ósammála þeim málefnalegu sjónarmiðum en látum það liggja á milli hluta að sinni. Hins vegar hefðu hæstv. ráðherrar, eftir að hafa farið yfir málið á efnislegum forsendum, eftir að hafa skoðað umsagnir, eftir að hafa skoðað ný gögn sem borist hefðu um tiltekna virkjun, komist að þeirri niðurstöðu með nákvæmlega sömu rökum að þessar tvær virkjanir hlytu óumflýjanlega að lenda í nýtingarflokki. En það gerðu þær ekki, þær gerðu það nefnilega ekki.

Þá vaknar auðvitað stóra spurningin í allri þessari umræðu: Af hverju ekki? Svarið blasir við öllum. Það var tilskipun frá stjórnarflokkunum um að færa verkefni úr nýtingarflokki í biðflokk, úr biðflokki í verndarflokk, en ekki öfugt. Þess vegna var niðurstaðan alltaf fundin fyrir fram. Það lá alltaf fyrir að niðurstaðan gæti ekki orðið önnur en sú sem þarna blasir við. Það var ekki byggt á faglegu mati heldur pólitísku. Auðvitað á pólitískt mat líka að byggja á faglegum forsendum, en ég er að benda á að niðurstaðan í hinu pólitíska mati var ekki byggð á faglegum forsendum heldur á fyrir fram gefinni niðurstöðu, af „dírektífi“ eins og við þekkjum frá Brussel, en í þetta skiptið kom það af flokkskontórum VG og Samfylkingarinnar.