141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get auðvitað ekkert fullyrt um svarið við þessu vegna þess að ég á ekki seturétt á þeim fundum þar sem þetta mál var undirbúið. Mér finnst hins vegar svarið blasa við. Við vitum að það er gríðarleg andstaða innan stjórnarflokkanna, mismikil þó, við hugmyndina um virkjanirnar í Þjórsá. Það liggur fyrir frá október 2011 afdráttarlaus flokkssamþykkt VG um að færa skuli verkefni úr nýtingarflokki í biðflokk og úr biðflokki í verndarflokk. Þá blasti við að virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár yrðu fyrir barðinu á því.

Það sem mér finnst svo tortryggilegt er að lögum er breytt til að búa til þessa stoppistöð þannig að hæstv. ráðherrar hafi aðgang að málinu. Nú þarf það ekki endilega að vera slæmt ef hæstv. ráðherrar vinna faglega og meta með sama hætti alla virkjunarkosti sem þeir telja að komi til greina, ef þeir eru metnir á efnislegum forsendum sem leiða til þess að sumir kostir fari úr nýtingu í bið og aðrir úr bið í nýtingu. Það sem ég hef verið að sýna fram á er að margvísleg gögn lágu fyrir sem bentu til þess að a.m.k. tveir veigamiklir virkjunarkostir, Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun, ættu að fara úr biðflokki í nýtingarflokk, en það var ekki gert. Það hefði getað orðið niðurstaða fyrir hæstv. ríkisstjórn ef hún hefði viljað ræða þetta efnislega.

Laxarökin eru falsrök í málinu, það blasir við öllum. Ef ríkisstjórnin hefði viljað fara mildari leið hefði hún getað skilyrt nýtingu Urriðafossvirkjunar við það að sýna fram á virkni mótvægisaðgerða vegna laxfiska við efri virkjanirnar tvær áður en virkjunarleyfi fyrir Urriðafossvirkjun væri gefið út. Það hygg ég að hefði getað orðið málefnaleg sáttaniðurstaða sem í raun hefði verið hægt að taka mark á. En eins og málið er í pottinn búið, eins og ríkisstjórnin vann einhliða í málinu, getur ekki orðið sátt um þessa niðurstöðu.