141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að skilja þetta mál öðruvísi en þannig að Vinstri grænir hafi ekki viljað sátt um þessa tillögu heldur yrði hún að líta út eins og þau ætluðust til. Það væru þeirra fingraför og þeirra áætlun. Það ætti ekki að gera sérstakar málamiðlanir til að koma til móts við þau sjónarmið sem uppi eru um að nýta ákveðna kosti til orkuframleiðslu eins og t.d. þær virkjanir sem hér voru nefndar í Þjórsá. Ég hygg að almennt sé samdóma álit hér inni að síst ætti að fara í Urriðafossvirkjun af virkjununum í Þjórsá, kannski langsíst, en að hinar tvær séu þannig gerðar að þær hafi tiltölulega lítil áhrif og auðvelt sé að fara í þær.

Annað þessu tengt er að með því að fara flokkspólitísku leiðina, verða við kröfum Vinstri grænna væntanlega um að færa þessa nýtingarkosti, er að mínu viti verið að seinka möguleikanum á frekari orkuvinnslu og orkuöflun í landinu. Þetta eru væntanlega þeir nýtingarkostir sem eru komnir hvað lengst í undirbúningi og fljótlegast væri fara í ef hér væri vilji til að hafa aukna og þá öruggari orku á boðstólum.

Áhrifin af því að stjórnarflokkarnir fara með málið í pólitísku förin eru þar af leiðandi ekki bara þau að setja rammaáætlun í uppnám heldur sýnist manni líka að þetta verði til þess að seinka mögulegum efnahagsbata á Íslandi.