141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sammála hv. þingmanni í því að ætla sér að svara í einni ræðu öllum spurningunum því að þá hlaðast upp spurningar sem margar hverjar eru eins. Það væri betra að hv. þingmaður kæmi í fleiri styttri ræður sem mega vera eins margar og hann vill og svaraði spurningunum þannig að menn þyrftu ekki að spyrja aftur og aftur. Og það væri enn betra ef hæstv. ráðherra kæmi hingað og svaraði.

Þetta var mjög gott svar hjá hv. þingmanni um rannsóknir á háhitavirkjunum. Nú skilst mér að það sé yfirleitt hægt að steypa upp í holur sem boraðar hafa verið og gera þær þannig afturkræfar. Það hefur reyndar einu sinni gerst að menn lentu á hrauni sem kom upp, það var við Mývatn og var eiginlega undur þannig séð, þar er svo grunnt niður á hraunstrauma. Ég held að það sé yfirleitt alltaf hægt að gera þetta afturkræft nema náttúrlega þann pall sem er notaður undir boranirnar þar sem hraun er þá sléttað. Kannski má gera kröfur um að sá skaði sé lágmarkaður.

Ég vildi gjarnan að við ræddum þetta. Ég held að mörgum liði betur ef þeir væru sannfærðir um að það væri einhver möguleiki á að virkjun sem lendir í biðflokki yrði rannsökuð og færi í nýtingarflokk ef það kæmi í ljós að hægt væri að nýta hana án þess að skaða náttúruna. Ég held hreint út sagt að það mundi auka sáttina í þessu máli. Þetta sýnir eiginlega hvað umræðan getur verið góð þegar menn tala saman. Ég legg til að hv. þingmaður og hæstv. ráðherra grípi inn í umræðuna öðru hverju og svari spurningum jafnóðum, t.d. um það af hverju menn tóku þá ákvörðun, eins og bent hefur verið á, á grundvelli rangra upplýsinga. Þá finnst mér alveg sjálfsagt að það sé skoðað.