141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Það eru margir þættir í þessu sem er hægt að ræða. Mikill hluti umræðunnar hefur verið um meginstefnuna, aðferðafræðina, og þá skyndilegu breytingu sem varð við það að hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra fengu málið í sínar hendur eftir að verkefnisstjórn hafði skilað af sér sem og svokallaður formannahópur og fyrir lágu drög að þingsályktunartillögu.

Eins og margir aðrir ræðumenn hér staldra ég helst við þá þætti, þ.e. þær breytingar sem gerðar voru af hálfu ráðherranna tveggja. Ég hef gagnrýnt það. Mér hefur þótt skorta heilmikið á í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað að fram kæmu skýr rök fyrir þeim ákvörðunum sem þar voru teknar. Þá er ég auðvitað fyrst og fremst með í huga þá sex virkjunarkosti sem færðir voru úr orkunýtingarflokki í biðflokk vegna þess að þarna er um að ræða mjög afgerandi breytingu á tillögunni. Þarna á meðal eru virkjunarkostir sem eru nálægt okkur í tíma sem hægt væri að ráðast í með skömmum fyrirvara sem eru afar hagkvæmir og hafa í för með sér að flestra mati sem um þetta hafa fjallað minni skerðingu á náttúruverðmætum en ýmsir aðrir kostir og röðuðust þess vegna tiltölulega hátt á þá mælikvarða sem verkefnisstjórn og faghópar lögðu til grundvallar í störfum sínum.

Ég verð að játa að hvorki í gögnum málsins né ræðum sem hér hafa verið fluttar hefur mér þótt koma fram sterkur rökstuðningur fyrir þeim breytingum sem ráðherrarnir stóðu að og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar skrifar undir. Ég horfi á rökin um neðri hluta Þjórsár og þar er fyrst og fremst gefin sú skýring að eftir sé að rannsaka betur áhrif virkjananna þriggja á laxastofna. Þegar málið er skoðað nánar kemur í ljós að þau rök eiga fyrst og fremst við um eina af þeim þremur virkjunum, þau eiga við um Urriðafossvirkjun en miklu síður, ef þá nokkuð, um Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Einhvern veginn finnst mér veikur rökstuðningur fyrir því að loka á þessar þrjár virkjanir sem hafa lengi verið í undirbúningi og eru þess eðlis að hægt væri að ráðast í þær með tiltölulega skömmum fyrirvara miðað við það sem gengur og gerist.

Ég velti líka fyrir mér hvort einhver getur farið nánar í þessari umræðu yfir hugmyndafræðina á bak við þessi svokölluðu áhrifasvæði, „buffer zones“, á miðhálendinu í tengslum við Hágönguvirkjanir og Skrokkölduvirkjun. Það er bent á að þær liggi nálægt Vatnajökulsþjóðgarði og það eigi eftir að athuga hvaða áhrif framkvæmdir á þessu svæði kunni að hafa á verndargildi Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég bið forláts ef það hefur farið fram hjá mér en mér finnst að hvað þetta varðar hafi rökstuðningurinn ekki verið mjög skýr eða nákvæmur. Það er vísað mjög almennt til þess að það væru viðurkennd sjónarmið að það bæri að sýna verndarsvæðum ákveðna virðingu með því að fara ekki í framkvæmdir rétt á mörkum þeirra. Mér finnst hins vegar rökstuðningurinn hvað þetta varðar, þegar yfirfært er á þessa tilteknu virkjunarkosti, heldur óljós. Ég vildi gjarnan fá útskýringar á því frá þeim sem standa að þessum (Forseti hringir.) niðurstöðum, hvort sem um er að ræða hv. þingmenn í þeim nefndum þingsins sem um þetta hafa fjallað eða hæstvirta ráðherra, (Forseti hringir.) á því með aðeins meiri nákvæmni hvernig þetta er. Mér sýnist þetta vera (Forseti hringir.) eins og hálmstrá sem gripið var í til að stoppa þessa virkjunarkosti.