141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir hans ágætu ræðu. Það er eðlilegt að kalla eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun ráðherranna að breyta þessu, ég tek undir með þingmanninum að það vantar rökstuðning fyrir því.

Nú hefur hv. þingmaður töluvert lengri reynslu á þingi en sá er hér stendur og kann þar af leiðandi væntanlega enn betur söguna um rammaáætlun, þ.e. hvenær og hvernig hún varð til. Ég held að ágætt sé að spyrja hv. þingmann að því hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að þegar farið var í þessa vegferð hafi verið almennur vilji þingmanna að skapa eins mikla sátt og unnt væri um hvaða möguleika ætti að nýta, hvað ætti að vernda, hvað þyrfti frekari rannsókna við o.s.frv.

Ég vakti athygli á því áðan eftir ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur héldu á þessu máli, og þegar Sjálfstæðisflokkur og Samfylking héldu á þessu máli ríkti þokkaleg sátt um ferlið. Núna þegar vinstri stjórnin heldur á málinu fer það í pólitískan farveg og verður að deilumáli á Alþingi og verður til þess að hér hafa stjórnarandstöðuþingmenn komið upp hver á fætur öðrum og jafnvel stjórnarliðar og lýst því yfir að þetta sé í raun tímabundið plagg, þetta sé bara ákvörðun þessa þings, þessarar ríkisstjórnar og lengra nái það ekki. Um þetta er þar af leiðandi ekki nokkur sátt. Mig langar að spyrja þingmanninn út í þessa sögu alla.