141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan að þingmaðurinn auglýsti eftir frekari rökstuðningi fyrir því að færa þessa kosti milli flokka. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað telur þingmaðurinn að hafi ráðið því að farið var í þá vegferð að breyta þessu?

Síðan vil ég vekja athygli þingmannsins og eftir atvikum kanna viðbrögð hans við því að í orkunýtingarflokki eru eingöngu tvær vatnsaflsvirkjanir eftir þessa breytingu. Önnur er á Vestfjörðum í Ófeigsfirði, Hvalárvirkjun, og hin er stækkun Blöndu eða Blönduveita. Það liggur ljóst fyrir að það er mjög erfitt í það minnsta, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að fara í Hvalárvirkjun án þess að ríkið komi að því með einhverjum hætti vegna tenginga við kerfið og annars. Þar af leiðandi og miðað við þær reglur sem gilda í dag er hún frekar óhagkvæmur kostur.

Eftir stendur að meiri líkur eru á því að farið verði í Blönduveitu, þó að hún sé reyndar ekki talin alhagkvæmasti kosturinn en sá kostur í vatnsafli sem er líklegastur til að farið verði í. Eftir stendur að meira og minna allt sem tillagan gengur út á í dag er að nýta jarðhita, en sú stefnumörkun er svo í nefndarálitinu gagnrýnd í sjálfu sér með ótal fyrirvörum og ótal hugmyndum um frekari rannsóknir og eitthvað slíkt.

Fyrir utan að spyrja hv. þingmann út í rökin fyrir því að breyta þessu langar mig að fá álit hans á þessari undarlegu forgangsröðun.