141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann talaði svolítið um „buffer zone“, nýja hugtakið sem er að koma inn í umræðuna út af þeim rökstuðningi sem meiri hlutinn notar til þess að færa kosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk miðað við tillöguna sem hópurinn sem Svanfríður Jónasdóttir og formenn faghópa sátu í ásamt fulltrúum ráðuneytanna notuðu.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann hefði áttað sig á því eftir þær fáu ræður sem stjórnarþingmenn hafa flutt í þessu máli hver munurinn væri á buffer zone og þeim svæðum sem verkefnisstjórn miðaði við í vinnu sinni.

Á bls. 48 í skýrslunni frá verkefnisstjórn rammaáætlunar kemur fram sú aðferðafræði sem faghópur I notaði. Hér sýnir þetta kort þau áhrifasvæði virkjana sem notuð voru til viðmiðunar. Ég skil bara ekki hvað menn meina þegar þeir tala um buffer zone þegar ég horfi á kortið og les skýringuna á aðferðafræðinni hjá faghópi I þar sem er talað um að vatnasvið séu notuð sem landfræðileg afmörkun sem spanni vatnafræðilega samfellu og vistfræðileg tengsl. Það er það sem faghópur I gerði.

Það kemur fram hérna að vatnasvið sé auk þess vel skilgreint hugtak í norsku rammaáætluninni, sem er í rauninni það eina sem við gátum miðað við þegar við unnum þessa vinnu í verkefnisstjórninni. Vinnueiningarnar eru heil vatnasvið en ekki einstakar virkjunarhugmyndir. Faghópur I notaði það sem viðmið.

Varðandi jarðhitann mótaði hópurinn matssvæðin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og út kemur kortið sem ég sýndi, kort 3.1, í skýrslunni frá verkefnisstjórn. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hvað er þá buffer zone?