141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í rauninni spurt þessarar spurningar: Hvað er þetta svokallaða buffer zone? Ég velti fyrir mér hvort ætlunin sé að gefa frjálsa túlkunina á því hvað geti talist áhrifasvæði eins og Vatnajökulsþjóðgarðs, eða eigum við að segja áhrifasvæði vatnasvæðis Hofsjökuls? Hversu langt munu menn ganga? Því er ekki svarað. Því er ekkert svarað hversu stórt svæði getur talist vera buffer zone.

Það er eðlilegt í vinnu verkefnisstjórnarinnar að notast við vatnasvið, eins og hér var nefnt. Það er nokkuð sem er hægt að skilgreina og liggur í raun fyrir hvað er. Þegar hugtak er sett fram með þessum hætti, í raun óútskýrt og engin viðmið sett eða ég hef alla vega ekki fundið þau viðmið sem ættu þá að fylgja með í nefndaráliti meiri hlutans, er erfitt að svara því, herra forseti, hvað búi að baki því að setja það fram nema ef til vill til þess eins að skapa óvissu til að hægt sé að segja síðar að í nefndaráliti meiri hlutans með þessu máli hafi komið fram að fara skuli út fyrir þau viðmið sem verkefnisstjórnin gaf sér, þá vitna ég t.d. til vatnasvæðis, að verið sé að opna fyrir möguleikann á að túlka þetta og vísa til þess að skilningur löggjafans hafi verið sá að teygja þetta út fyrir það sem verkefnisstjórnin hafði gefið sér. Mér þykir miður þegar farið er af stað með slíkt í málum sem þessum þar sem er verið að reyna að skapa sátt.