141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þetta. Ég held, eins og aðrir, að það hafi ekki komið fram, ég hef kannski misst af því en ég kannast ekki við að það hafi verið reynt að útskýra eða færa rök fyrir hugtakinu buffer zone sem hér er sett inn. Það virðist eiga einhverja tengingu við hin svokölluðu varúðarsjónarmið sem hér eru líka sett inn og ég gagnrýndi aðeins fyrr í ræðu hvernig væru túlkuð og sett fram í nefndarálitinu. Mér sýnist að enn og aftur sé leitað leiða til að halda því opnu að í framhaldinu verði ekki endilega hægt að festa sig við þær forsendur sem verkefnisstjórnin gaf sér. Þetta hefur ekki verið útskýrt fyrir okkur að mínu viti.

Það er hins vegar mikilvægt, hvort sem við ræðum þetta út frá verndarsjónarmiðum eða nýtingarsjónarmiðum eða hvoru tveggja, að verkefnið sé afmarkað. Verkefnisstjórnin reyndi greinilega að afmarka sitt verkefni og finna út einhverja mælikvarða og við hvað ætti að miða og setti sér viðmið og þess háttar. Það er í rauninni þynnt svolítið út þegar svona hugtök koma inn, sem maður skilur ekki og finnur ekki rökstuðning fyrir. Þar af leiðandi er, að mínu viti, enn og aftur verið að draga úr þeirri vinnu sem verkefnisstjórnin innti af hendi.

Ef við viljum fara í þá vegferð að vernda einhver svæði þurfum við skilgreina þau. Það er ekki hægt að skilgreina þau opið eða með einhverri túlkun á hvað geti verið áhrifasvæði. Það er hægt að ganga mjög langt í því að velta fyrir sér hvað séu (Forseti hringir.) áhrifasvæði fyrir til dæmis eina á sem möguleiki er á að virkja.