141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt umræða um rammaáætlun sem hefur því miður mistekist, þ.e. ekki umræðan heldur rammaáætlunin, eins og í það minnsta einn hv. stjórnarþingmaður hefur farið ágætlega yfir. Við erum að ræða þetta út frá ýmsum forsendum og ég hef þá trú að Íslendingar eigi það sameiginlegt að vera miklir náttúruverndarsinnar og hafi alla jafna mikinn skilning og vilja fyrir því að hafa umhverfismál í hávegum. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni lifum við af því að umhverfismálin séu í góðu lagi og við værum í verulegum vandræðum ef við hefðum ekki umhverfismálin sem áhersluatriði. Afkoma okkar byggist á því að umhverfismálin séu í góðu lagi. Við erum matvælaframleiðendur og verðum þannig að hafa umhverfismálin í góðu lagi. Við erum með langhæsta hlutfallið af umhverfisvænum orkugjöfum í heiminum og erum sú þjóð sem menn líta til þegar þeir reyna að leysa vanda eins og Kyoto-vandann. Þá líta menn til Íslands og spyrja: Hvernig fara þeir að því að standa svona að málum, að vera með jafnhátt hlutfall af umhverfisvænum orkugjöfum og raun ber vitni?

Við skulum hins vegar ekki fara neitt í grafgötur með að það eru miklar deilur á Íslandi þegar kemur að því að nýta umhverfisvæna orkugjafa. Ég held að það mundi laga umræðuna ef við tækjum hana á réttum forsendum. Af hverju segi ég það, virðulegi forseti? Vegna þess að núverandi stjórnvöld fóru inn í faglegt mat og faglega vinnu og blönduðu pólitík í hana. Ég held eða vil trúa því að þau séu ekki á móti orkugjöfum, þau eru bara á móti — ja, ég kann ekki best að segja frá því. Ef við tökum stærstu deiluna, um Kárahnjúka þar sem menn deildu um þetta á umhverfisforsendum, ég held að vísu að annað hafi legið að baki, held ég að ýmislegt hafi gleymst sem geri það að verkum að við sitjum uppi með óþarfaumhverfisslys. Ég tel að mestu umhverfisslysin í tengslum við Kárahnjúka séu lagnirnar og hápennulínurnar. Ef við hefðum einbeitt okkur meira að því og metið heildaráhrifin, og þá er ég að tala um umræðuna, held ég að við hefðum kannski getað komið okkur saman um að gera það betur en síðan deilt um það hvort við ættum að fara í virkjunina eða ekki. Í það minnsta hefðum við getað notað kraftana til þess að koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.

Ég hef áhyggjur af því að þegar menn setja umræðuna í eitthvað annað, tengja hana umhverfis- og náttúruvernd þegar hún snýst um annað, séum við ekki með athyglina á þeim hlutum sem við gætum svo auðveldlega sameinast um. Ég veit ekki hvort það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það, hvort það hafi verið bara óhjákvæmilegt, en ég held sömuleiðis að stærstu umhverfisáhrifin við Kárahnjúka séu óæskileg áhrif á Lagarfljótið. Ég tók þátt í þeirri umræðu á sínum tíma en man ekki eftir að mikil umræða hafi verið um það, einhver umræða en lítil. Það var næstum engin umræða um háspennulínurnar og tiltölulega lítil um áhrifin á Lagarfljótið. Það getur vel verið að ekkert hafi verið hægt að gera í því en í það minnsta var ekki athyglin þar. Athyglin var á öðrum þáttum sem síðan virðist ekki hafa verið jafnmikil ástæða til að hafa áhyggjur af.

Síðan er sjálfsagt líka að ræða um hluti sem geta komið jákvætt út þegar maðurinn, getum við sagt, hefur afskipti af umhverfinu. Það er ótrúlega lítil umræða um það þegar við höfum áhrif á umhverfið eins og til dæmis þegar við ryðjum, segjum á höfuðborgarsvæðinu, undir byggð og annað slíkt. Þá ræðum við lítið um umhverfismálin, finnst það einhvern veginn vera sjálfsagt. Ég tel langstærsta umhverfisslysið á Íslandi vera í Reykjavíkurborg og ég hef aldrei heyrt neina umræðu um það. Það var örugglega engin umræða á þeim tíma en lítil núna og er aldrei tilgreint þegar menn tala um umhverfisslys. Ég er að tala um Gufunesið. Ég sá myndir af því hvernig Gufunesvogurinn var á sínum tíma. Hann var alveg stórkostlegur, virkilega fallegur. Það sem maður heyrði af því var að þarna hefði verið einstök veðurblíða og þeir sem stunduðu heyskap á Gufunesi kældu sig reglulega í hitanum með því að synda í voginum. Á einhverjum tímapunkti fengu menn síðan þá stórkostlegu hugmynd að ryðja þetta út og fylla upp þennan fallega vog með sorpi. Það er algjörlega óafturkræft og jafnvel þó að við hefðum alla þá fjármuni sem við vildum væri mjög erfitt og hugsanlega ómögulegt að ná aftur þessum vogi. Af því að við erum að ræða umhverfismálin og náttúruverndarmálin ákvað ég, virðulegi forseti, að fá útrás fyrir þetta. Mér finnst alveg ótrúlegt hvað það hefur verið lítil umræða um þetta stóra umhverfisslys í Reykjavík.

Einhver kann að segja að þetta hafi verið þegar við sjálfstæðismenn vorum í stjórn borgarinnar fyrir einhverjum áratugum, ætli Geir Hallgrímsson hafi ekki þá verið borgarstjóri. Ég held að það sé alveg rétt og ég veit ekkert hvort menn höfðu uppi einhver varúðarorð, mér þykir jafnlíklegt að mönnum hafi fundist þetta vera sjálfsagt og eðlilegt og það var bara í takt við þann tíðaranda sem þá ríkti.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að á einhverjum tímapunkti getum við komið í veg fyrir svona slys ef við fáum betri, málefnalegri og fyllri umræðu bæði í þingsölum og annars staðar í þjóðfélaginu. Menn eiga að koma hreint til dyranna og segja: Við erum bara á móti virkjunum, (BJJ: Nákvæmlega.) ekki vera að flækja þetta í eitthvað allt annað. Ef menn eru að því erum við bara að draga athyglina frá því sem skiptir máli. (Gripið fram í: Ég er á móti virkjunum … ) Já. Hér er einn góður hv. þingmaður sem kallar bara: Ég er á móti virkjunum. Þá á bara að segja það (Gripið fram í.) og svo eigum við að taka umræðuna um það hvort við eigum að virkja eða ekki. Það er alveg óþolandi að það sé búið að eyðileggja þetta 13 ára ferli sem átti að vera grunnurinn að upplýstum ákvörðunum út frá einhverjum allt öðrum forsendum. Mér finnst að við eigum að klára þetta ferli en taka síðan slaginn um það hvort við förum í virkjanir eða ekki. Ekki eyðileggja þetta faglega ferli sem er búið að kosta milljarða ef ekki milljarðatugi — ég þekki ekki þær upphæðir — vegna þess að menn þora ekki að segja það sem þeim finnst og eru að reyna með einhverjum pólitískum loddarabrögðum eða brambolti og einhverjum hrossakaupum á milli ríkisstjórnarflokkanna að eyðileggja ferli og vinnu sem átti að vera grundvöllur að upplýstum ákvörðunum. Það er mesti skaðinn í þessu, virðulegi forseti. Það er ekki mesti skaðinn að við séum með ríkisstjórnarflokka sem eru á móti virkjunum og á móti fjárfestingum hér á landi, nei, mesti skaðinn er sá að nú erum við komin með þessa rammaáætlun sem átti að vera grunnur að upplýstum ákvörðunum og það er búið að eyðileggja hana. Þessir milljarðar hafa kannski ekki alveg farið í súginn en það er komið fordæmi um að menn taki þessa faglegu vinnu og segi bara sem svo: Já, gott og vel, það getur vel verið að þessi vinna sé með þessum og þessum hætti, nú ætla ég bara að fara að hræra í þessu.

Hugmyndin var aldrei að stjórnmálamennirnir færu með krumlurnar í rammaáætlunina, það var það bara ekki. Mikil er ábyrgð núverandi ríkisstjórnar að eyðileggja þetta mikla verk, mikil var ábyrgð þeirra. Af hverju geta menn bara ekki sagt: Við erum á móti virkjunum?

Af hverju þurfti að eyðileggja þetta? Það er alveg óþolandi. Tökumst á um það hvort það eigi að vera virkjanir yfir höfuð, einni virkjuninni fleiri eða færri, efnahagslegu áhrifin, hvort það eigi að selja þetta í álver eða eitthvað annað. Tökumst á um það en eyðileggjum þetta ekki, nóg eru skemmdarverkin samt. (GLG: Vilt þú …?)

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um virkjanir fyrir einn eða neinn. Þetta snýst um það að plaggið sé grundvöllur upplýstra ákvarðana, þetta snýst um það og ekkert annað. Við getum verið með þetta plagg og sagt svo: Við ætlum ekki að virkja neitt. (Forseti hringir.) En það er óþolandi, virðulegi forseti, að Vinstri grænum hafi tekist að eyðileggja (Forseti hringir.) þessa vinnu. Það er óþolandi.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmann að virða tímamörk.)