141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að þetta hafi ekkert snúist um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Ég man ekki eftir því, og ég hef tekið oft þessa umræðu, að neinn stjórnmálaflokkur hafi sagt: Nei, við skulum ekki fara þessa leið. Ég man ekki eftir því. Þegar svona rammaáætlun er tilbúin veit enginn útkomuna og þetta er ekki óskaplagg neins. Þetta er vinnulag þar sem við erum með bestu upplýsingar sem hægt er að fá og síðan eru viðkomandi svæði flokkuð niður.

Ég man ekki eftir því að vinstri grænir hafi sagt: Við viljum alls ekki halda áfram þessari vinnu með rammaáætlun. Ég man ekki eftir að samfylkingarmenn hafi sagt það. Þó vissu allir hver endapunkturinn var.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin eru búin að tala fyrir faglegum vinnubrögðum lengi, alltaf held ég bara, ég held að engir stjórnmálamenn hafa notað orðið faglegt eins oft og mikið og hv. þingmenn alþýðubandalagsflokkanna, vinstri grænir og samfylkingarmenn. Þegar við skoðum síðan raunveruleikann snýst þetta um hrossakaup á milli ríkisstjórnarflokkanna. Samfylkingin fékk það sem Samfylkingin snýst um, ESB, annað fór til VG.

Hv. þm. Kristján Möller er búinn að benda á að það sé búið að eyðileggja þetta plagg. Það eru kannski fáir eftir en í það minnsta eru gömlu kratarnir, sem voru og hétu, og hægri kratar ekki ánægðir með þetta og örugglega margir fleiri í Samfylkingunni þó að það endurspeglist ekki í þingliðinu. En þetta snýst bara um gamaldags pólitík, (Forseti hringir.) annar fær þetta, hinn hitt. Það eru ekki fagleg vinnubrögð, þau eru bönnuð.