141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið er gaman að heyra að fleiri þingmenn eru á sama máli varðandi það að þetta séu pólitísk hrossakaup. Ég sagði til dæmis í minni fyrstu ræðu að þetta væri gjaldið fyrir ESB-umsókn Samfylkingarinnar. Gjaldið er að mínu mati mjög hátt því að hér er verið að keyra með þessari tillögu allt saman í þrot og stöðnun. Vinstri grænir fengu sín náttúrumál í gegn, inn í gegnum rammaáætlun, fyrir það að gefa eftir ESB-umsóknina.

Skammsýni Vinstri grænna er að mínu mati mjög mikil. Eins og við vitum eru ríki Evrópusambandsins mjög auðlindasnauð. Talsmenn Evrópusambandsins sjálfs hafa bent á að það sé orðið lífsnauðsynlegt fyrir Evrópusambandið að komast á norðurslóð og það sé meira virði að fá Íslendinga inn í sambandið og Samfylkingin hefur lagst á sveif með Evrópusambandinu í þá átt að innlima okkur þarna. Þá erum við að tala um norðurslóðir, legu landsins og annað.

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið missum við jafnframt tökin á nýtingunni á þeim auðlindum sem er að finna í þeirri rammaáætlun sem er nú hér til umræðu. Við vitum að ríki Evrópusambandsins eru að verða orkuþrota, þess vegna er til dæmis þessi vinna farin af stað hjá Landsvirkjun varðandi sæstrenginn sem á að flytja ómælt rafmagn til ríkja Evrópusambandsins í gegnum Bretland eða Skotland eftir því hvar honum verður fundinn staður. Það er mjög skrýtið að Landsvirkjun sem ríkisorkufyrirtæki okkar skuli vera með stórar áætlanir um þennan sæstreng á meðan ríkisstjórnarflokkarnir tala fyrir máli í þinginu sem lýtur að því að hér verði ekkert virkjað í framtíðinni. Hvaðan á þá orkan að koma?

Svo virðist sem ríkisfyrirtækið Landsvirkjun vinni hér eitthvað með hægri hendinni, ríkisstjórnin er að vinna í aðra átt með vinstri hendinni og enginn veit hvaðan er komið eða hvert farið. (Forseti hringir.) Þetta er afar einkennileg staða.