141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þingmaður fer hér yfir er grafalvarlegt mál. Þetta þætti auðvitað stórfrétt ef ekki væri fyrir þessa ríkisstjórn. Forseti ASÍ hefur verið seinþreyttur til vandræða þegar hefur komið að ríkisstjórninni. Það eru ekki nýjar fréttir að ríkisstjórnin hafi svikið gefið loforð. Hún hefur svikið skriflega samninga og hún hefur svikið yfirlýsingar. Þetta er engin frétt lengur, en það hlýtur að vera frétt, virðulegi forseti, þegar forseti ASÍ segir: „Það verður ekki frekar rætt við þessa ríkisstjórn.“

Virðulegi forseti. Það er galli, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, að við séum með stjórnvöld sem finnist sjálfsagt og eðlilegt að svíkja fyrirheit og samninga. Það er ekkert heilagt. Ég hefði svo sannarlega viljað og finnst það sjálfsagt og geri ekki lítið úr því — það geta alveg verið málefnaleg rök fyrir því að fara ekki í einstakar virkjanir og við eigum að takast á við það. Það geta verið málefnaleg rök fyrir að taka þá umræðu. En það er í besta falli ótrúlega óskynsamlegt að eyðileggja þessa rammaáætlun vegna þess að hún átti að vera grunnur að góðri málefnalegri umræðu. Síðan er hinn þátturinn, virðulegi forseti, sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson minntist á, að við verðum að fá fjárfestingu í landið, við verðum að ná fjárfestingum af stað. Ef við viljum halda í okkar fólk, ef við viljum fá fólk til baka, ef við viljum auka kaupmátt, ef við viljum ná niður ríkissjóðshallanum, auka tekjur ríkissjóðs, ef við viljum halda úti spítölum og skólum þá verðum við að fá fjárfestingu og tekjur. Það að fara þessa leið, virðulegi forseti, er þvert á þau (Forseti hringir.) markmið.