141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er alveg rétt, það þarf örugglega að herða róðurinn í þessum efnum því það er greinilegt að skilaboðin sem fram hafa komið í þessari umræðu hafa ekki náð eyrum ráðamanna.

Ég er áhugamaður um pólitíska sögu. Þess vegna finnst mér dálítið fróðlegt að skoða núna þá stöðu sem greinilega er komin upp í samskiptum ríkisvaldsins undir forustu núverandi stjórnarflokka við verkalýðshreyfinguna.

Sú var tíðin að forverar þeirra stjórnarflokka sem nú sitja kölluðu sjálfa sig verkalýðsflokka eða öllu heldur eins og sagt var á þeim bæjum, „verklýðs“-flokka, með sérstakri áherslu. Þar var talað um órofa tengsl verkalýðsflokkanna og verkalýðshreyfingarinnar.

Nú kveður allt í einu við nýjan tón. Það eru ekki lengur þessi órofatengsl, þetta heilaga bandalag. Nei, nú eru hafðar uppi heitingar. Ég hlustaði á viðtal forseta Alþýðusambands Íslands og hæstv. atvinnuvegaráðherra áðan í útvarpinu. Maður kallar ekki allt ömmu sína og hefur ýmislegt heyrt og séð en ég verð að játa að ég átti ekki von á því að það yrði slíkt neistaflug milli fulltrúa verkalýðsflokksins og Alþýðusambands Íslands. Við heyrðum forustumann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala um að forseti Alþýðusambands Íslands kynni ekki mannasiði og færi fram með endemis ósvífni. Þetta segir okkur auðvitað að þarna á milli er orðinn alger trúnaðarbrestur. Það á sér meðal annars skýringar í þessu þingskjali sem við erum með hér, rammaáætlun sem forseti Alþýðusambands Íslands færði rök fyrir að væri sérstakt tilræði við kjarasamninga vegna þess að hún leiddi til lækkunar á gengi íslensku krónunnar, veikti lífskjörin í landinu og væri þess vegna sérstakt neikvætt innlegg í kjarasamningaviðræður í landinu.