141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Oft er það þannig að þegar við í stjórnarandstöðunni viljum ræða mál erum við sökuð um málþóf. Við erum sökuð um að tefja fyrir málum, reyna að skemma fyrir. Það sem gerist oft í umræðu eins og þessari er að nýjar upplýsingar koma fram og andrúmsloftið í þjóðfélaginu breytist. Við sáum til dæmis í morgun auglýsingu þar sem Alþýðusamband Íslands, sem inniheldur flesta starfsmenn á vinnumarkaði eins og við vitum, kallar það brotið loforð hvernig farið er með þessa rammaáætlun. Við höfum líka séð hvernig atvinnuvegaráðherrann tekur á hlutunum, bæði í Speglinum í Ríkisútvarpinu og í Kastljósi rétt í þessu, hvernig hann raunverulega svarar þeirri gagnrýni sem beinist að ríkisstjórninni vegna þessa máls. Þar blasir ekki við fögur mynd en hún endurspeglar hvernig ríkisstjórnin nálgast þessa hluti. Hún endurspeglar hversu mikið samráð hún vill hafa við fólkið í landinu og í raun algjöra uppgjöf, getum við sagt, gagnvart því verkefni að koma hagvexti af stað í landinu.

Það er hægt að orða það svo að fleiri en stjórnarandstaðan sjá eitthvað athugavert við þetta háttalag, við það hvernig þessi mál eru afgreidd af ríkisstjórninni. Ég veit ekki hvort þetta er einsdæmi en þetta er að minnsta kosti með sjaldgæfari hlutum sem maður sér, að verkalýðshreyfingin sjái sig knúna til að kaupa auglýsingu í dagblaði til að minna á hvernig ríkisstjórnin hagar sér.

Í blaðaviðtali segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, með leyfi forseta:

„Það var niðurstaða okkar á fundinum í dag að við ættum ekkert vantalað við þessa ríkisstjórn. Við munum við endurskoðun samninganna ekki freista það að ræða við ríkisstjórnina. Við metum það enda svo að það þjóni engum tilgangi. Við erum búnir að reyna það til þrautar. Tími ríkisstjórnarinnar kom og fór.“

Þetta er merkilegt, ekki bara í ljósi þess að hér talar forseti ASÍ, heldur miklu heldur að hann er að tala til þeirra tveggja flokka sem eiga hvað dýpstar rætur í verkalýðshreyfingunni. Þær rætur eru greinilega dánar og stjórnarflokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, eru orðnir algjörlega einir á báti, búnir að missa baklandið í þeirri vegferð sem er verið að fara hérna. Það er alvarlegt (Gripið fram í: Mjög.) fyrir stjórnmálaflokk. (Gripið fram í: Mjög alvarlegt.) Og það er enn alvarlegra að hér skuli vera auglýst brotin loforð ríkisstjórnarinnar um slíkt grundvallarmál sem til dæmis þessi rammaáætlun er.

Eins og ASÍ er þjóðin að bíða eftir því að losna við þessa ríkisstjórn þannig að hægt sé að taka til við að byggja hér upp í þessu landi, hefja framkvæmdir, auka útflutning og bæta lífskjör.