141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski óhætt að segja að aldrei komi of mikið af varnaðarorðum þegar þessi vinstri ríkisstjórn er í umræðunni eða við þurfum að tala við hana. Það er athyglisvert að sú framtíðarsýn sem okkur er boðin þegar kemur að rammaáætlun er að mínu viti mjög óljós vegna þess að það er frekar leitast við að skapa óvissu en að eyða henni, hvað þá að reyna að ná sátt. Nú er svo komið að um þá sátt sem átti að ríkja um rammaáætlun og hefur brugðist á Alþingi gildir hið sama fyrir utan Alþingi. Úti í samfélaginu eru menn búnir að átta sig á því að þetta plagg gengur ekki upp. Þar er einnig orðið ósætti sem kemur best fram í auglýsingu Alþýðusambandsins í dag og síðan viðtölum við forseta Alþýðusambandsins. Þetta er hins vegar sá tónn sem við þingmenn erum búnir að heyra í langan tíma frá verkafólki úti um landið, frá þeim sem veita forseta ASÍ umboð sitt. Þeir ágætu einstaklingar sem við mann hafa rætt hafa varað nákvæmlega við þessu. Er skemmst að minnast varnaðarorða formanns Verkalýðsfélags Akraness sem hefur barist mjög ötullega fyrir því að halda þessum hlutum á lofti.

Fram undan eru kjarasamningar. Því ætla ég að spyrja hv. þingmann spurningar sem kann að verða erfitt fyrir hann að svara: Hvert getur útspil ríkisstjórnarinnar orðið í aðdraganda kjarasamninga? Það er ekki gert ráð fyrir fjármunum í fjárlagafrumvarpinu en (Forseti hringir.) það mun kosta ríkissjóð eitthvað. Nú er það vinnumarkaðurinn.