141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um að hér er um grafalvarlegt ástand að ræða. Það væri ágætt af því að hv. þingmaður er sigldur maður í lífsins ólgusjó eins og sagt er að hann mundi fræða mig um það, vegna þess að ég man ekki eftir því að Alþýðusamband Íslands hafi áður sagt skilið við sitjandi ríkisstjórn með jafnafdráttarlausum hætti og gerðist í dag þar sem svo fast var kveðið að orði að Alþýðusamband Íslands, fulltrúi 100 þús. launamanna, mundi ekki hafa meiri samskipti við þessa ríkisstjórn, það yrði hlutverk þess að ræða við næstu ríkisstjórn, þ.e. eftir kosningar, um málefni sem brenna á þjóðinni. Við erum að tala um gríðarlega mikilvægt mál. Það er kannski þess vegna sem við ræðum það ítarlega hér. Það að skera niður fjárfestingu sem mögulega gæti hljóðað upp á 270 milljarða á fjórum árum, samkvæmt ráðgjafarfyrirtækinu Gamma, er ekkert smámál. Þetta er stórmál sem við ræðum hér.

Ég endurtek spurningu mína til hv. þingmanns: Rekur hann minni til þess að Alþýðusamband Íslands hafi komið fram með svo afdráttarlausa yfirlýsingu gagnvart nokkurri ríkisstjórn? Í raun eru yfirlýsingar Alþýðusambandsins og reyndar Samtaka atvinnulífsins um brotin loforð alls staðar, ekki bara í þessum málaflokki heldur mörgum, og þetta hlýtur að segja okkur eitthvað og gefa okkur einhverja vísbendingu um það hvernig þessi ríkisstjórn heldur á atvinnumálum þjóðarinnar.