141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hefur umræðan staðið nokkuð lengi og verið góð. Það er einn ljóður á því, herra forseti, sem ég sé ákveðna lausn á eins og stendur þar sem hæstv. umhverfisráðherra er við fundinn. Ég og margir fleiri hv. þingmann höfum stöðugt verið að spyrja og ekki fengið svör. Formaður umhverfisnefndar, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, hefur komið hér nokkrum sinnum og svarað og það hefur varpað ljósi á sumt, t.d. hvað það þýði að ákveðinn virkjunarkostur er í biðflokki. Má þá ekki rannsaka neitt? Þá kom fram hjá hv. þingmanni að það væri vegna þess að hún óttaðist svo mikið rask. Þá er spurningin: Væri hægt að breyta þessu þannig að það mætti að sjálfsögðu rannsaka í biðflokki en leitast skyldi við að hafa rask sem allra minnst? Ég beini þessari spurningu til hæstv. ráðherra og ef hann gæti svarað því strax kynni það að stytta umræðuna töluvert mikið.

Síðan hefur líka komið fram að mikil áhersla er lögð á það að banna vatnsaflsvirkjanir sem þó er miklu betri þekking á á Íslandi og lögð áhersla á jarðvarmavirkjanir sem eru lítt rannsakaðar eða hefur ekki enn verið komið til botns í. Við sjáum að við Hellisheiði ráða menn ekki við brennisteinsvetnisvandann. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið tilgangurinn sem hér hefur komið fram. Var tilgangurinn að beina athyglinni að varmaorkuvirkjunum vegna þess að þar er minna rannsakað og að hugsanlega lendi menn í vandræðum?

Svo verð ég að vísa í þá auglýsingu sem birtist í morgun í blöðunum. Það kemur þessu máli við. Þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar — ekki efnt.“

Þá kemur spurningin: Var það samkomulag við ASÍ að rammaáætlun skyldi vera efnd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndarinnar? Hvers vegna brugðu menn frá því? Af hverju gerðu menn eitthvað annað, tóku eina sex nýtingarkosti og settu í biðflokk sem dregur úr atvinnumöguleikum á Íslandi, minnkar virkjanir og annað slíkt? Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna hún hafi ákveðið sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar, og ríkisstjórnin öll, að hverfa frá þessu. Og nú stendur í auglýsingu að orð skuli standa en að ekki hafi verið staðið við þau.

Síðan kemur merkileg setning í þessari auglýsingu:

„ASÍ hvetur Alþingi til að standa með íslensku launafólki.“

Það virðist benda til þess að hún treysti hreinlega ekki hæstv. ríkisstjórn og þar með hæstv. umhverfisráðherra til að standa við þessi orð.

Svo hef ég sjálfur velt upp þeim vanda sem við erum í gagnvart umheiminum, þeim að íslensk orka er sú hreinasta í heimi. Jafnvel ál sem hér er brætt með koldíoxíðmengun vegna kolaskautanna mengar margfalt minna en ál sem brætt er í Kína eða Sádi-Arabíu þar sem raforkan er framleidd með brennslu jarðefna. Spurningin er þá hvort ekki sé allt að því skylda Íslands að virkja sem allra mest með hliðsjón af umhverfisverndarsjónarmiðum heimsins. Þetta er einn hnöttur, herra forseti, sem kunnugt er.

Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvort þá væri ekki ráð að taka þessa ályktun frá sérfræðinganefndinni sem flestir eru sammála og virkja það sem hún leggur til bara hreint út sagt og vera fljót að því. Síðan getum við notið þess á eftir að hafa virkjað það sem hægt er, alveg sérstaklega jarðvarmann, því að það vatnsafl sem þar fer forgörðum kemur aldrei aftur. Það sem er að renna akkúrat núna niður þennan klukkutímann er orka sem Ísland er að tapa, það vatn fer út í sjó bara og hitar kannski bergið eitthvað pínulítið og vatnið. Öðru máli gegnir um jarðvarmavirkjanirnar, þær eru á vissan hátt geymdar og mér finnst að við ættum að bíða betur eftir tækninni þar sem er í mjög hraðri þróun.