141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Já, við hv. þingmaður erum sammála um að hér vantar okkur svör við grundvallarspurningum um hvað gerist eftir að við samþykkjum þessa þingsályktunartillögu. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ég skilji hlutina rétt í á-lið á bls. 25 þar sem verkefnisstjórninni er falið að meta þörf fyrir jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir. Það er alveg nýtt ef verkefnisstjórnin á að fara að leggja eitthvert mat á það hversu mikil þörf verði á orkuauðlindum á Íslandi eftir 10, 20, 30 ár. Það hlýtur að fara eftir stefnu stjórnvalda hverju sinni. Þetta er alveg nýtt hlutverk sem verkefnisstjórninni er falið með þessu orðalagi verði tillagan samþykkt eins og hún er. Maður veltir fyrir sér hvað þetta orðalag þýði nákvæmlega.

Hv. þingmaður er þingreyndur maður. Mér sýnist að það sé verið að víkka allmikið umboð og hlutverk þessarar verkefnisstjórnar ásamt því sem verkefnisstjórnin á að rannsaka einstaka virkjunarkosti sem er algjör nýlunda. Þetta hlýtur að kosta töluverða fjármuni. Þá hljótum við að spyrja ykkur og ég spyr hv. þingmann án þess að hann sé málsvari fyrir þetta mál, sem betur fer: Hvað kostar þetta? Um hvaða fjármuni erum við að tala? Hver á að borga þetta? Er það ríkissjóður eða eru það orkufyrirtækin? Mér finnst alveg skorta á núna í þessari umræðu að við vitum hreinlega hvað við erum að samþykkja ef þessi þingsályktunartillaga gengur til atkvæða. Erum við að tala um 100 milljónir? 500 milljónir? 50 milljónir? Hver veit það?

Þetta er ein grundvallarspurning sem við þurfum að fá svör við vegna þess að það er ekkert um það í neinu kostnaðarmati með þessari þingsályktunartillögu.