141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara Orkustofnun sem gerir athugasemdir við það heldur fór ég yfir það í andsvari í dag að mikil vinna fer nú fram hjá Landsvirkjun varðandi hugsanlegan sæstreng til Skotlands, til Bretlands. Það vantar náttúrlega orku inn á þann streng og á meðan ríkisstjórnin vinnur að því að setja hér algjört stóriðjustopp og virkjunarstopp vinnur Landsvirkjun, ríkisfyrirtækið sjálft, að drögum að því að farið verði í stórkostlegan orkuútflutning.

Ég skil ekki alveg hvað er í gangi hjá ríkisstjórninni varðandi það. Ég vil samt taka það fram að ég vil ekki að Ísland verði hrávöruútflytjandi á orku. Ég er fyrst og fremst meðmælt niðurstöðum starfshóps um rammaáætlun sem unnið hafði mjög gott starf í 13–14 ár og farið í mikið ferli. Þar var haft samráð og gegnsæi í störfum hópsins, sem er það sem ríkisstjórnin þykist alltaf vera að vinna eftir. Þá kemur bara hin vinstri græna krumla inn og breytir málinu áður en það er þingfest. Það er alveg hreint óskiljanlegt. (Gripið fram í.)

Sem betur fer er líftími þessarar ríkisstjórnar á enda eftir nokkrar vikur. Sem betur fer verður kosið upp á nýtt. Eins og allir vita er Framsóknarflokkurinn mikill atvinnumálaflokkur (Gripið fram í.) og skilur mikilvægi þess að skapa hér atvinnu til að heimilin geti blómstrað og til að hér aukist hagvöxtur sem væri hægt að nýta í hinum opinbera geira.

Úr því að hv. þingmaður benti á IPA-styrkina er það nú eitt sem er náttúrlega algjörlega fáránlegt. Verið er að moka 5 þús. millj. kr. inn í opinbera geirann með einhverjum nýjum tölvukerfum og vitleysu. Það er nú eina atvinnusköpunin sem þessi ríkisstjórn stendur í (Forseti hringir.) í boði Vinstri grænna.

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að hæstv. umhverfisráðherra (Forseti hringir.) komi ekki upp í ræðu eða andsvör við þingmenn vegna þess að hún situr hér í salnum.