141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á eitt atriði sem hefur vakið athygli og var mikið rætt hér í umræðunni um fjárlögin. Það liggur alveg fyrir að til þess að geta farið í þá atvinnuuppbyggingu á Bakka sem hv. þingmaður nefndi hér þurfa 2,6 milljarðar kr. að koma inn í fjárlögin. Það snýr að innviðunum, vegagerð og hafnargerð. Það stendur til að skrifa undir viljayfirlýsingu og samninga núna í vor þess efnis að fara í þessa atvinnuuppbyggingu.

Forsvarsmenn Norðurþings, sveitarfélagsins sem kemur að þessu, sögðu það með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti að verði þetta fjármagn ekki sett inn í fjárlögin muni sveitarfélagið ekki skrifa undir viðkomandi samninga. Flóknara var það ekki, það var bara þannig. Þá verður að sjálfsögðu ekki af þessari atvinnuuppbyggingu á Bakka, sem er forsenda fyrir hagvaxtarspánni sem er tekið mið af við gerð frumvarpsins. Þar er gert ráð fyrir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði á seinni hluta árs 2013, sem þýðir þá sannarlega tekjufall fyrir ríkissjóð, þannig að þá verður tekjuhlutinn orðinn laskaður.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi áhyggjur af því að í raun og veru standi enn eina ferðina til að standa ekki við þau framlög sem þurfa að koma. Jafnvel að íbúar Norðurþings og forsvarsmenn sveitarfélaganna muni þá birta samsvarandi auglýsingu í blöðunum eins og kom fram frá Alþýðusambandinu í dag um að búið væri að svíkja þau loforð sem gefin voru. Einnig að ekki standi til, á meðan þessi ríkisstjórn hafi eitthvað um það að segja, annað en að halda áfram á þeirri braut sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið á, að ráðast gegn atvinnulífinu alls staðar á landinu hvar og hvenær sem er.