141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur varpað ljósi á að forsendur fjárlaga og fjárlögin sjálf standast ekki. Það er í raun og veru ákveðin mótsögn í þessu því að hagvaxtarspáin byggir á atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík, en til þess að af henni geti orðið þarf að fjárfesta fyrir 2,6 milljarða. Það er ekki í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013, þannig að maður veltir fyrir sér hvort hér sé verið að reyna með einhverjum hætti að fegra stöðu ríkissjóðs, fegra spána. Ef þessir fjármunir verða ekki til verður ekkert af þessari atvinnuuppbyggingu og þar með er tekjuhlið ríkissjóðs jafnvel ofmetin sem því nemur. Maður veltir því fyrir sér hvernig ríkisstjórnin hagar málum í þessu. Fyrir utan svo hitt að við sem höfum talað fyrir atvinnuuppbyggingu á Bakka höfum ekki fengið neinar sérstakar undirtektir frá þingmönnum Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar. Það er holur tónn í þeirri umræðu, jú nema til heimabrúks fyrir ákveðna þingmenn sem eru búsettir í kjördæminu, en aðrir hafa sýnt mjög takmarkaðan skilning á uppbyggingu atvinnuiðnaðar á þessu svæði.

Mér sýnist að hér sé um enn eitt dæmið að ræða í fjárlagafrumvarpi þessarar ríkisstjórnar þar sem menn eru viljandi, vil ég meina — það sjá þetta allir — að fegra stöðu eða framtíðarhorfur ríkissjóðs, það er einfaldlega þannig. Og það er mjög mikilvægt að núna við 3. umræðu fjárlaga 2013 verði þetta atriði dregið aftur fram til þess að raunsönn mynd af stöðu ríkissjóðs birtist þá a.m.k. í þingtíðindum.