141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Í dag er hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson á mælendaskrá þannig að ég á von á því að hann komi vígreifur til þessarar umræðu. Ég er viss um að við hv. þingmaður verðum á vaktinni þegar hv. þingmaður kemur og við munum inna hann eftir því hvort hann styðji þetta fjárlagafrumvarp sem inniber ekki í sér þá fjármuni sem hv. þingmaður hefur nefnt hér að ríkisstjórnin þurfi að verja til þess að byggja upp innviði í atvinnumálum í Þingeyjarsýslu.

Síðan verð ég einfaldlega að vekja athygli, rétt eins og fleiri, á heilsíðuauglýsingu Alþýðusambands Íslands í dag þar sem við þingmenn erum hvattir til dáða til þess að standa í lappirnar gagnvart ríkisstjórninni. Þar segir m.a., frú forseti, um akkúrat þetta mál sem við ræðum hér, með leyfi frú forseta:

„Rammaáætlun afgreidd í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar“ og svo er feitletrað: „ekki efnt“.

Þess vegna ræðum við þessi mál hér. Ríkisstjórnin er að ganga gegn ráðum okkar helstu vísindamanna sem hafa unnið að þessum málaflokki í 13 ár, allt vegna þess að einn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hótaði Samfylkingunni því að fengi hann ekki sínu framgengt, að sex rennslisvirkjanir yrðu færðar úr nýtingarflokki í biðflokk, yrði þessu ríkisstjórnarsamstarfi slitið, það er einfaldlega þannig. Og dýr er nú verðmiðinn á að lengja líf þessarar ríkisstjórnar um tvo eða þrjá mánuði, ef marka má gögn frá Gamma ráðgjafarfyrirtæki. Það mun ekki kosta þjóðina nema um 270 milljarða kr. í minni fjárfestingu á næstu fjórum árum. Þetta fer að verða dýrasta ríkisstjórn lýðveldissögunnar.