141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta snýr að sjálfsögðu að fundarstjórn forseta, þ.e. framkvæmd þingfundarins, því að óskað er eftir því að boðað verði til sameiginlegs fundar í þessum nefndum og hlé gert á þessari umræðu á meðan. Það er til þess að hægt sé að fara yfir málið og ræða við aðila vinnumarkaðarins sem þarna eru nefndir, að mér heyrðist að ósk þingmannanna. Ég held að eðlilegt sé að gera það því að málið er stórt, það er mikilvægt og það er alvarlegt. Það er að sjálfsögðu alvarlegt að saka ríkisstjórnina um að svíkja loforð, en það er svo sem ekkert nýtt, við höfum séð hana gera það margoft.

Hins vegar er líka alvarlegt að Alþýðusambandið, eins og hefur komið fram í dag, varar mjög við því að fara þá leið að breyta rammaáætluninni þannig að hér muni hægja á hagvexti, sem er nú ekki mikill, o.s.frv. Þar af leiðandi held ég að sé eðlilegt, frú forseti, að verða við ósk þingmannanna.